146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:30]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir andsvarið. Það er gott að heyra að fleiri hugsa á svipuðum nótum því að ég get tekið undir það með hv. þingmanni að fæst þeirra framsöguerinda sem ég hef hlustað á í dag og á fimmtudaginn upplýstu mig sérlega mikið um málið eða hjálpuðu mikið til, annað en að gefa í skyn að um málið ríki djúpstæður ágreiningur.

Varðandi tóbakið er stutta svarið að ég hef hreinlega ekki velt því fyrir mér, ég viðurkenni það. Það er ekki innan áhugasviðs míns hvar hægt er að ná í tóbak. Ég hef hins vegar ekki orðið vör við það í umræðunni almennt að það að einkaaðilar selji tóbak, eins og staðan er, geri það að verkum að einhverjir undir aldri eigi auðvelt með að nálgast það. En ég þekki það ekki. Ég verð einfaldlega að viðurkenna að þetta er ekki mál sem ég hef skoðað.