146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:34]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég held að síðasti hv. ræðumaður, Hanna Katrín Friðriksson, hafi að mörgu leyti dregið kjarna málsins ágætlega saman þegar hún lýsti því á mjög heiðarlegan hátt hvernig hún nálgaðist þetta mál. Annars vegar væri hún höll undir þau rök, sem margir aðstandendur málsins tefla fram, að ríkið eigi ekki að standa í svona starfsemi — nú ætla ég ekki að leggja hv. þingmanni orð í munn en í grófum dráttum var það á þeim nótum — en svo vægjust á í hennar huga önnur sjónarmið eins og lýðheilsu- og heilbrigðissjónarmiðin og áhyggjur af áhrifum á heilbrigðiskerfið; og hennar niðurstaða væri sú að láta það vega þyngra. Auðvitað snýst þetta mál, eins og öll önnur umdeild eða breið mál, um það að lokum hvað við látum ráða niðurstöðu okkar, hvað á að vega þyngst þegar við komumst að efnislegri niðurstöðu í máli af þessu tagi.

Nú er það svo að allar rannsóknir, alla vega þær sem ég hef séð, sýna að aukið aðgengi eykur neyslu. En aðgengið er bara lítill hluti þessa máls. Það er í samhengi við áfengisstefnuna að öðru leyti. Það er bara einn þáttur af mörgum sem markar heildarumhverfið. Það er verðlagningin, það er opnunartími og það er margt, margt fleira sem til samans myndar þessa umgjörð. Ég held að við eigum ekki að smætta þetta niður í að þetta snúist bara um það hvort aukið aðgengi auki neyslu og þar með séum við með því eða á móti eftir atvikum. Þetta er hluti af miklu stærra máli. Hvernig nálgumst við þetta og tökumst á við það að þessi vara er staðreynd, að hún hefur sín áhrif? Ofneysla hennar er skelfileg, hefur í för með sér mikið mannlegt böl og það hefur runnið upp fyrir mönnum þannig að víðast hvar á byggðu bóli eru einhverjar reglur uppi um þetta hafðar. Þetta tengist líka inn á frelsisumræðuna sem ég hef kannski tíma til að koma aðeins betur að hér á eftir.

Stuðningsmenn þessa máls segja gjarnan: Já, en ÁTVR hefur stóraukið aðgengi að áfengi á undanförnum árum og fjöldi veitingastaða hefur verið opnaður. Nokkuð til í því, sérstaklega hinu síðara. Það eru þó veitingastaðir, matsölustaðir, sem hafa vínveitingaleyfi. Varðandi aukið aðgengi í gegnum verslanir ÁTVR hefur það fyrst og fremst verið fólgið í fjölgun útsölustaða í smærri byggðarlögum vegna þess að ÁTVR hefur teygt sig í áttina að því að bjóða mönnum þessa þjónustu innan tiltekinna fjarlægðarmarka og á þeim grundvelli opnað litlar verslanir víða í smærri byggðarlögum. Þegar menn tala um fjölda útsölustaða ÁTVR verða þeir að hafa þetta í huga.

ÁTVR hefur ekki aukið aðgengi í þeim skilningi að tugir þúsunda í viðbót hafi fengið vínverslun á þröskuldinn, það er ekki þannig. Jú, en það hefur fjölgað nokkrum útsölustöðum af því að ÁTVR hefur að mínu mati, og alveg réttilega, litið á það sem skyldu sína að hafa ákveðin viðmið þegar það útfærir sína þjónustu. En þetta er stýrt aðgengi. Þetta er undir því stranga eftirliti sem starfsemin lýtur. Þetta er með þeirri hugmyndafræði sem er að baki verslunar ÁTVR. Það er öflugt eftirlit með aldurslágmarki, það er fastur opnunartími og það er því marki brennt, sem skiptir miklu máli hér, að með því að ríkið hafi þetta í sínum höndum er tryggt að hin opinbera áfengisstefna á hverjum tíma sé lögð til grundvallar í verslunarrekstrinum.

Þá er ónefnt það sem ég hef saknað úr þessari umræðu að með því að verslunin sé í höndum ríkisins, og sé hluti af hinni opinberu áfengisstefnu og þannig útfærð, er aftengdur hagnaðar-„að selja sem mest“-hvatinn, sem almennt ríkir í einkarekinni verslun. Það er það stærsta hér. ÁTVR er ekki rekið með því hugarfari að selja sem mest. Aldeilis ekki. ÁTVR er rekið með því hugarfari að veita þessa þjónustu en gera það af hófsemd, að hvetja til góðrar umgengni um vöruna, að vera alls ekki á neinn hátt með söluhvetjandi áherslur í sinni starfsemi. ÁTVR er ekki með tilboð. ÁTVR auglýsir ekki vasklausa daga á áfengi, en það getur einkaverslunin gert. Ef ég skil rétt er þetta frumvarp enn þá lengra úti á jaðrinum að því leyti til að hér er horfið út ákvæði eldra frumvarps um að sala á undirverði sé óheimil. Það er beinlínis verið að opna á það að verslunin megi nota áfengi í markaðshvetjandi tilgangi, gera mönnum tilboð: Komdu, það er 15% afsláttur á rauðvíninu. Og þá er líklegt að menn kaupi eitthvað meira í leiðinni. Og hagnaðar-„að selja sem mest“-hvatinn er dæmdur til að vera þarna inni ef þetta fer frá ríkinu.

Nú veit ég að margir eiga voðalega erfitt með að ríkið standi fyrir nokkrum sköpuðum hlut og vilja kannski jafnvel helst leggja það niður, alla vega eigi það alls ekki að vasast í svona löguðu. Nú háir það mér ekki. Ég hef enga fordóma gagnvart því að ríkið annist ákveðin verkefni í okkar samfélagi. Ég lít ekki á ríkið sem fjarlægan óvinveittan aðila sem ég þarf að hafa allan vara á mér gagnvart. Nei, af því að ríkið erum bara við. Það er bara skipulagið okkar í þessu landi. Það að eitthvað sé á vegum ríkisins þýðir að það er hjá okkur. Það er sameiginleg stjórnsýsla okkar, það er sameiginleg framkvæmd í okkar skipulagða samfélagi. Ég hef enga fordóma gagnvart því. Þar með er ekki sagt að ég telji endilega að ríkið eigi að færa út kvíarnar og vera í smásöluverslun almennt. Kannski kemur einhver og reynir að gera mér upp þær skoðanir, en það mun ekki hafa nein áhrif á mig. Ég er ýmsu vanur í þessum efnum. Ég bara nálgast þetta einfaldlega svona. Ef það er praktískt gott fyrirkomulag sem hefur reynst okkur vel, að hafa hlutina í okkar höndum, þá er það bara gott, þá gerum við það áfram.

Áfengi mun væntanlega hækka í verði frekar en hitt ef af þessu verður. Það er vegna þess að einkarekin verslun mun ekki una annars vegar 18% smásöluálagningu á léttvín og bjór og 12% á sterkt áfengi. Hún ætlar sér meiri hlut. Verslunin, þ.e. stórverslunin, ætlar sér auðvitað meira. Hún ætlar sér bæði smásöluálagninguna og heildsöluálagninguna af því að hún ætlar að flytja vínið inn sjálf. Hún ætlar að fá mikið út úr þessari vöru. Hún ætlar líka að nota hana til þess að draga fleiri að sínum verslunum. Hverjir munu ná undirtökunum? Auðvitað stórverslunin. Auðvitað, enda er hún þegar búin að tryggja sér mikið af umboðum. Hún mun hampa sínum vörutegundum, þeim sem hún flytur inn sjálf, stuðla að því að þær seljist sem mest og þær munu verða ráðandi á markaðnum. Hvað gerist þá? Smásölurisarnir, stóru aðilarnir, munu leggja þennan markað undir sig eins og annan og ná örugglega sambærilegri markaðshlutdeild í áfengi og þeir hafa í matvöru eða almennri neysluvöru. Þannig að stóru risarnir tveir munu verða með 60–70% markaðshlutdeild í áfengi áður en við er litið og ætla sér að gera sér gott af.

Þess vegna er það nú að smærri verslanir eru almennt ekki hrifnar af þessu. Kaupmaðurinn á horninu er ekkert spenntur. Þeir urðu fyrir vonbrigðum, sumir frjálshyggjumennirnir, þegar við í efnahags- og viðskiptanefnd kölluðum þá fyrir okkur og báðum þá um þeirra afstöðu af því að það er búið að telja okkur trú um að litla verslunin vilji þetta endilega. En það er ekki svo. Sumir af reyndustu kaupmönnunum, sem enn þrauka í samkeppni við risana, sögðu: Nei, þvert á móti. Í guðs bænum, forðið okkur frá þessu. Við munum aldrei ráða á þessum markaði. Við getum aldrei verið með umboðin og verðum ekki með umboðin fyrir söluhæstu vörurnar. Við neyðumst til að kaupa þær af stórversluninni. Þeir munu láta okkur borga þær fullu verði. Á sama tíma og þeir munu í krafti stærðar sinnar — gagnvart birgjunum, heildsöluaðilunum, af því sem þeir flytja ekki inn sjálfir — pína fram magnafslætti handa sér.

Menn ættu að lesa skýrslu Samkeppniseftirlitsins um stöðuna í smásöluverslun frá 2012. Vilja menn auka á fákeppnina að þessu leyti? Já, það er svarið. Það verður óumflýjanleg afleiðing af því ef þessi verslun hverfur úr höndum ríkisins og fer út á markaðinn. Þetta er þess vegna afturför í samkeppnismálum en ekki framför. Það er nú bara þannig.

Hér hafa margir ræðumenn á undan mér farið vel yfir afstöðu fagaðila í þessu máli. Þegar ég tala um fagaðila þá á ég að vísu ekki við Samtök verslunarinnar. Ég við landlækni, uppeldis-, fræðslu-, umönnunar- og heilbrigðisstéttir, skólameistara, Barnaheill, Unicef; þannig gæti ég talið upp til kvölds. Ég á við nánast sameinaðan þann geira í landinu sem kemur að málum barna og ungmenna, sem kemur að heilbrigðismálum, sem kemur að félagsmálum, almennt að velferðarmálum, fræðslumálum o.s.frv. Hann er á móti þessu máli.

Er það virkilega þannig að menn þurfa ekkert að staldra við? Ég verð að segja alveg eins og er að tilburðir hér til að afgreiða þetta sem það léttvægt að einhver innri frelsistilfinning ráði för — ég undrast það. Í venjulegum þingmálum er það þannig að ef allar umsagnir þeirra sem eðlilegast er að hlusta á í málinu eru neikvæðar þá staldra menn við, en það gera flutningsmenn ekki því að það hefur auðvitað legið fyrir að þetta yrði gert í algerri andstöðu við allan þennan geira; algjörlega, bæði innlendan og erlendan, gegn rannsóknum og rökum. Mér finnst menn ansi brattir ef þeir ætla bara að ýta þeim rökum svona léttvægt út af borðinu.

Er þetta sérstakt áhugamál almennings? Er mikið verið að biðja um þetta úti í þjóðfélaginu? Hvernig hafa viðhorfin verið að þróast á undanförnum árum? Eru menn að vinna þessa umræðu, þeir sem vilja brennivín í búðirnar? Nei, þeir eru sem betur fer að koltapa henni. Skoðanakannanir sýna að á hverju ári sem líður vex andstaðan við að fara í þessa breytingu. Út af fyrir sig má þess vegna segja, frú forseti, að það megi þakka þrautseigjuna flutningsmönnum; ef þeir halda þessu áfram nokkur ár í viðbót verður öll þjóðin orðin á móti þessu. Þannig er það nú.

Endurteknar umferðir á þessu máli auka andstöðuna við það. Nú er svo komið að tveir þriðju til þrír fjórðu, sem gefa upp afstöðu sína í skoðanakönnunum, eru andvígir málinu. Þeir sem gefa upp stuðning við það, það er mín tilfinning, gera það ekki af því að þeir brenni fyrir þessari breytingu. Þeir fáu sem ég hef hitt úti á meðal almennings, sem hafa sagt að þeir styddu þetta, segjast gera það af prinsippástæðum, af því að þeim finnist að ríkið eigi ekki að standa í þessu, en þetta sé þeim ekkert kappsmál. Ég held að það brenni ekkert mjög margir fyrir þessari breytingu nema þá helst þessi litli þröngi hópur sem hefur borið það hér á borð dag eftir dag. Núverandi fyrirkomulag hefur skilað góðum árangri. Ísland stendur vel í öllum samanburði. Við höfum náð árangri með okkar aðhaldssömu stefnu, framsýnu stefnu, nútímalegu stefnu, að takast á við það vandamál sem áfengið er og afleiðingar neyslu þess og ofneyslu á árangursríkan hátt. Hvers vegna þá að breyta? Stendur það ekki svolítið upp á flutningsmenn þessa máls að sanna það og sýna að þörf sé á að breyta núverandi fyrirkomulagi? Þau rök eru ósköp óburðug. Það er bara af því bara.

Frelsið. Er þetta frelsismál? Er þetta ofsalega frjálslynt? Er það frjálslyndi í dag að hunsa lýðheilsurök þegar þau eru í vaxandi mæli að taka yfir umræðuna, þegar menn gera sér æ betur grein fyrir ýmsum vandamálum sem í nútímasamfélaginu eru ærið kostnaðarsöm og erfið viðureignar? Lýðheilsuvandamál; mætti þar nefna offituna, vaxandi nýgengi sykursýki, í viðbót við áfengisvandamálin. Nei, það er ekkert frjálslynt við það. Þetta eru gamaldags viðhorf, þröngsýn viðhorf. Þetta er sérhagsmunapólitík.

Þeir sem bera þetta mál fyrir brjósti gera það ekki vegna þess að almenningur krefjist þess. Það er ekki þannig. Þá eru þetta ekki almannahagsmunirnir, varla. Meiri hluti þjóðarinnar er á móti þessu. Það er fyrst og fremst einn þröngur hópur sem vill þessa breytingu. Það eru þeir sem þéna á stórverslun í landinu. Þess vegna eru flutningsmenn þessa máls fótgönguliðar sérhagsmunabaráttu. Það er þannig, eins og ég lít á það. Niðurstaðan er og yrði slík. Það er verið að þjóna sérhagsmunum en ekki almannahagsmunum og þetta hefur ekkert með frelsi að gera.

Hver er frjáls og hver er ekki frjáls í sambandi við brennivín á Íslandi eða annars staðar í heiminum? Þeir sem eru ófrjálsir eru þrælar þess, fjölskyldur þeirra, börnin, sem alast upp í skugga ofneyslu áfengis. Þar skortir á frelsið en ekki gagnvart hinum sem telja sig með réttu eða röngu geta höndlað það að nota áfengi. Þeim er ekki of gott að fara í sérverslanir til að sækja það til að hlífa öðrum við þjáningarfyllri vandamálum en þeim að fara kannski 100 metrum lengra eftir áfenginu. Það er ekki stóra vandamálið. Það er ekki frelsisskerðing frekar en bílbelti eða það að mega ekki keyra á hærri hraða en 90 km, eða hvað það nú er. Það er ótrúlegt tal að umræða um einstaklingsfrelsi eigi eitthvert erindi inn í þetta mál sem er samfélagsmál og snýr að allt öðrum hlutum.

Til að bíta höfuðið af skömminni er hér lagt til að leyfa áfengisauglýsingar í staðinn fyrir að takast á við vandamálið sem er allt of margar beinar og óbeinar áfengisauglýsingar, sem menn smeygja í gegnum göt á núverandi löggjöf og veiklaðri framkvæmd. Það er það sem þarf að gera, þ.e. að stoppa þær áfengisauglýsingar sem eru í gangi og hækka framlög í Forvarnasjóð. Það er tvennt sem þarf að gera, tvennt er nothæft í þessu frumvarpi, (Forseti hringir.) þ.e. tillagan um að hækka framlög í Forvarnasjóð og tillagan um áfengisauglýsingar með því að henni sé snúið við og (Forseti hringir.) tekið á þeim götum sem eru í núgildandi löggjöf þannig að áfengisauglýsingar verði áfram bannaðar.