146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:50]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka fram að ég hef ekki tekið endanlega afstöðu til þessa máls. Þetta er ekki eitt af þeim málum sem ég hef haft eitthvað sérstaklega ofarlega á mínum forgangs- eða baráttulista. Í prinsippinu er ég samt hlynnt því að verslun sé sem frjálsust, enda er ég frjálslynd kona. Mér finnst leiðindabragur á því að gert sé lítið úr þeirri lífsskoðun.

Ég hef hins vegar ekki tekið endanlega ákvörðun um hvernig ég mun greiða atkvæði í þessu máli enda treysti ég því að málið muni fá faglega og málefnalega meðferð í þinginu. Sjálf er ég ný á þingi og hef því ekki tekið þátt í umræðum um þessi mál í þessum sal. Ég hef því verið opin fyrir því að hlusta á sjónarmið og rök beggja póla til að komast að endanlegri niðurstöðu. En að því sögðu get ég ekki sagt að þeir sem hafa talað hér í dag gegn málinu hafi endilega hjálpað mér að taka afstöðu í málinu. Það fer nefnilega alveg stórkostlega í taugarnar á mér hversu mjög þeir sem tala gegn því keyra á tilfinningarökum við hliðina á lýðheilsurökunum. Það eru þingmenn hér sem hafa tekið sér það hlutverk að vernda tilfinningar þeirra sem takast á við áfengisfíkn. Það eru líka þingmenn hér sem hafa tekið sér það hlutverk hvíta riddarans að verja tilfinningar þeirra sem eiga aðstandendur sem eru áfengissjúkir, og þá sér í lagi barna. Samkvæmt þeim þarf að verja menn, konur og börn gegn því að þurfa að takast á við angist sem þau gætu hugsanlega, mögulega, upplifað við að ganga fram hjá vínrekkum í verslunum sem kunna að velja að selja áfengi.

Sem barn áfengissjúklings sem nýtir sér þessi dægrin gistiskýli borgarinnar fyrir ógæfumenn vil ég segja þetta: Ég þykist ekki tala fyrir öll börn alkóhólista, ekki frekar en fulltrúar annarra þingflokka geta þóst gera það. Ég tek ekki þátt í slíkum málflutningi. Ég vil miklu heldur beina sjónum að sálfræðiþjónustu við börn alkóhólista. Við þurfum að efla þjónustu við börn alkóhólista. Börn alkóhólista þurfa mun betri aðhlynningu og þjónustu, ekki síst á landsbyggðinni. Við eigum að vinna að því. Og kannski og vonandi verður það verkefni þeirrar nefndar að fjalla um þetta mál þegar það gengur til hennar. Þetta er eitthvað sem ljóst er að SÁÁ skortir fjármagn til að gera. Þannig getum við t.d. unnið gegn því að börn alkóhólista, sem eru sérstaklega viðkvæm í þessu tilliti, leiðist út í neyslu áfengis eða annarra vímuefna. Það er miklu skilvirkari og betri leið til að gæta að sálarheill barna sem eru í þeirri ömurlegu stöðu að vera börn alkóhólista. Miklu betri leið að gera það þannig.

Börn þurfa nefnilega aðstoð við að takast á við það hlutskipti að vera barn alkóhólista. Hjálp svo þau upplifi einmitt ekki angist við það að ganga um búðir þar sem áfengi er selt. Angistin tengist nefnilega ekki sölustöðunum sem slíkum. Slíkur málflutningur er einföldun og aðeins til þess fallin að drepa umræðunni á dreif. Þessi angist sem fylgir því að vera barn alkóhólista á sér miklu dýpri rætur en svo að hún útskýrist af sölustöðum áfengis. Að halda slíku fram er bull. Ég tek ekki þátt í slíku.

Ég get borið vitni um það sem barn alkóhólista sem ólst upp á landsbyggðinni þar sem í minni barnæsku var engin áfengisverslun að angistin var til staðar þrátt fyrir fjarveru áfengisverslana. Pabbi fékk bara áfengið sent með flutningabílum, póstinum eða mjólkurbílnum ef því var að skipta.

Mér finnst þessi umræða á þessum nótum sem ég kem hérna inn á og ég hef upplifað hér í dag vera afvegaleiðandi. Eins og aðrir þingmenn Viðreisnar sem hafa talað í dag vil ég leggja til, og ég styð, að málinu verði hleypt til nefndar til umfjöllunar og að við klárum þetta með faglegri, góðri og málefnalegri umfjöllun.