146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:55]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég tengi við ýmislegt í ræðu hennar. Og nú líður mér eins og ég sé á öðrum fundi því að ég er nefnilega alkóhólisti. Ég hef ekki leyft mér það í mínum málflutningi að koma neitt inn á það eða þykjast tala fyrir þann fjölbreytta hóp sem ég deili þeim örlögum með, af hvaða sökum sem það svo er. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er að mörgu leyti gott að vera ekki að láta tilfinningarök hlaupa með sig í gönur eða telja sig tala fyrir stóran hóp í samfélaginu. Ég beini því líka til hv. þingmanns, sem sló hér ýmislegt út af borðinu, að það gilti ekki um önnur börn alkóhólista því að það gilti ekki um hv. þingmann sjálfan. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður sagði að það að sölustaðir vektu upp einhverja angist væri bull. Það getur reyndar vakið upp angist hjá fullt af börnum alkóhólista. Það er ýmislegt í því umhverfi sem við búum við hér sem vekur upp angist hjá fullt af fólki. Það er ýmislegt í umhverfi okkar sem vekur upp angist hjá alkóhólistum. En ég er alveg sammála því að við skulum ekki taka ákvarðanir byggðar á tilfinningarökum. Við skulum heldur ekki láta eins og tilfinningar skipti engu máli í samfélaginu.

Ég nálgaðist þetta mál ekki með sérstaklega sterka skoðun á því þrátt fyrir að ég sé alkóhólisti. Óvirkur alkóhólisti, er kannski rétt að taka fram á þessum stað. Ég ráðlegg hv. þingmanni, þar sem hún deilir því með okkur að hafa ekki sterkar skoðanir á þessu, ef ég skildi hana rétt í upphafi, að vera þá ekki að hlusta á okkur hin hér, að hlusta þá frekar á fagfólkið, á allan þann hóp (Forseti hringir.) sem kemur m.a. inn á aðstæður fyrir börn alkóhólista, og fara eftir ráðleggingum þess. Ég ákvað að gera það. Þess vegna er ég á móti þessu frumvarpi.