146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:57]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ástæðan fyrir því að ég kom inn á angist var einmitt sú að ég tel mikilvægt að við stóreflum þjónustu við börn alkóhólista, þjónustu sem SÁÁ hefur einmitt talað um sjálft að þurfi að stórefla. Með því að veita börnum sálfræðiþjónustu er hægt að hjálpa þeim að vinna gegn þessari angist og hjálpa þeim að aðskilja sjúkdóminn frá sjálfum sér og frá manneskjunni sem þjáist af honum. Það er raunverulega hjálpin sem börnin þurfa á að halda, að mínu mati. Og eins og ég vék að í ræðu minni er þetta mitt mat. Ég er tilbúin að taka hér málefnalega umræðu og vona að þetta mál fari til nefndarinnar þar sem það mun vonandi fá málefnalega umræðu og að fólk fari kannski aðeins að hlusta hvert á annað, hlusta á rök hvers annars. Mér finnst það ekki endilega alltaf vera þannig. Ég hef einhvern veginn upplifað hérna í dag að við séum ekkert endilega að hlusta hvert á annað eða svara hvert öðru. Hér koma þingmenn upp trekk í trekk og til skiptis til þess að segja sína skoðun en ekki til að ræða saman. (BjG: Við erum að tala um þetta í þriðja sinn.) — Já, en samt tala allir enn þá á ská. (Gripið fram í.) Ég hugsa að við ættum aðeins að hugsa það og beina sjónum okkar frekar að því að hjálpa í stað þess að blanda börnum inn í þetta og beina athygli okkar að því hvernig við eigum að hjálpa börnum alkóhólista, óháð þessu frumvarpi. Það er bara kannski önnur umræða en þó tengd umræða.