146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:59]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég lít ekki svo á að ég tali eingöngu við þá sem hér sitja inni þótt ég tali úr þessu púlti í þessu herbergi. Sem betur fer hafa fleiri en eru innan þessara veggja áhuga á því sem við þingmenn segjum þó að við getum kannski verið sammála um að sá áhugi mætti vera meiri. Við tökum það kannski til okkar.

En ég fagna yfirlýsingum hv. þingmanns um nauðsyn þess að efla stuðning við til að mynda börn alkóhólista, sálfræðiþjónustu. Ég treysti því að það eigi líka við um alkóhólista og alla þá sem eiga um sárt að binda yfir höfuð vegna þess að við ákveðum að selja vöru sem er stórhættuleg en setjum á hana ákveðnar hömlur. Þeirrar afstöðu sá því miður ekki stað í fjárlagaafgreiðslu í desember þar sem t.d. SÁÁ fóru bónleið til búðar þegar þau báðu um meiri fjármuni. Þá sögðu nú margir þingmenn hér inni að ekki mætti hrófla við fjárlögunum. Það væri ekki okkar hlutverk hérna. Það hefði betur verið meiri samstaða um það þá. En ég fagna því að við hv. þingmaður séum sammála um að stórauka þurfi fjármuni til þessa. Ég fagna því að hæstv. fjármálaráðherra skuli sitja hérna og hlusta á þetta því að það verður þá vonandi þannig að við sýnum manndóm og setjum aukna fjármuni í það að styðja þá sem um sárt eiga að binda, algerlega óháð því hvernig fer með fyrirkomulag sölu vörunnar. Það er umtalsverður fjöldi sem þar á í hlut.

Ég spyr hv. þingmann (Forseti hringir.) í lokin: Telur hún að þau sem sjá um stuðning við börn alkóhólista telji að þetta frumvarp sé heillaspor?