146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[19:53]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er auðvitað stórpólitískt mál. Ég vil ekki halda því fram að þetta mál sé ómerkilegt. Þetta er mál sem í raun dregur fram mjög mörg mikilvæg atriði í því hvernig við sjáum fyrir okkur hlutverk okkar sem þingmanna en ekki síður hvernig við viljum sjá samfélagið þróast. Þess vegna finnst mér mikilvægt að við ræðum kost og löst á málinu af sanngirni en horfumst um leið í augu við það sem er nánast eins og leiðarstef í einhvers konar pólitískri hugmyndafræði — og nú er ég að reyna að vera mjög væg í mínu orðavali — eins og til að mynda þann frasa að gefa fólki meira val; þ.e. að með því að gefa fólki meira val sé maður alltaf að taka góða ákvörðun. Sú hugsun hefur verið mjög rík hjá hægri mönnum. En undirliggjandi hefur oft verið krafan um einkavæðingu opinberrar þjónustu, sem er umræða sem við þurfum að taka í miklu lengra máli en í einu stuttu andsvari.

Hv. þingmaður vék hér að þessu með vesenið. Það er bara einn punktur og ég fellst á að það snúist kannski fyrst og fremst um pólitíska retórík að nefna það. En af því að við erum nú hér að skiptast á skoðunum langar mig til að biðja þingmanninn — þótt það sé kannski ekki fræðilega rétt að ég beini spurningu til hv. þingmanns á þessum tímapunkti, en ég treysti á umburðarlyndi forseta — um viðbrögð við því þegar ég kalla það skeytingarleysi gagnvart lýðheilsu- og heilsufarssjónarmiðum að koma fram með frumvarp af þessu tagi sem kallar á þessi sterku viðbrögð þessara stofnana og halda því fram að það sé mál sem ekki tengist umfjöllunarefni þingmálsins sem slíks.