146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[19:55]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Ég skal sýna þá biðlund að taka vel í þessi skoðanaskipti. Skeytingarleysi er auðvitað ákveðið orð. Ég hef sagt það áður í þessum ræðustól að ef ég væri að taka afstöðu til bjórfrumvarpsins á sínum tíma stæði ég líklegast frammi fyrir nákvæmlega sömu umræðu og sömu rökum. Ég myndi annars vegar standa frammi fyrir hugmyndum um það hvort ég teldi rétt að einstaklingar gætu notið ákveðinnar vöru, sem var ekki lögleg en varð síðan lögleg, andspænis hvatningu mjög margra aðila, sérfræðinga í lýðheilsumálum, sérfræðinga í málefnum barnaverndar, sem hvettu mig til svipaðrar afstöðu og í þessu máli. Það hefði líklegast verið hægt að nota orðið skeytingarleysi á þeim tíma á svipaðan hátt en ég á mjög erfitt með að sjá að ég hefði komist að annarri niðurstöðu.