146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[19:57]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef nú hlustað á hv. þingmann tala um þetta tiltekna mál víða og í fjölmiðlum og það er mjög gjarnan þannig að þegar komið er að ákveðnum vendipunkti í umræðunni fer hann að tala um bjór í búðir, um gamla bjórfrumvarpið. Ég vil virða honum það til vorkunnar en um leið segja að þetta er annað mál. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við höldum okkur við það mál sem hér er til umfjöllunar. Það er mjög einfalt að víkja að allt öðru máli þar sem önnur rök gilda og telja þar með að maður vinni rökræðuna vegna þess að tiltekin niðurstaða hafi orðið í allt öðru máli fyrir mörgum áratugum. Ég vil gera athugasemdir við það almennt hversu oft þingmaðurinn notar þau sjónarmið og þau rök í þessari umræðu.

Hv. þingmaður var í andsvari við mig þannig að ég get ekki beint til hans fyrirspurn en ef hann vill taka hér til máls síðar í umræðunni finnst mér þau rök mjög sterk að við þurfum að sjá röksemdina fyrir nauðsyn málsins, þ.e. umfram þá almennu hægri-hugmyndafræði að mikilvægt sé að gefa fólki meira val um hvar það kaupir áfengi. Mér finnst það vera of léttvægt, of mikil ungliðavigt í því, á móti öllu hinu. Ég held að það endurspeglist í því að stuðningur við málið er á miklu undanhaldi, sérstaklega raunar í baklandi Sjálfstæðisflokksins sem er áhugavert að horfa á. Það er meiri stuðningur við það í baklandi Bjartrar framtíðar og Viðreisnar. En þegar á heildina er litið er þjóðin minna á því að við eigum að samþykkja þetta mál núna en var áður. Ég held að það sé vegna þess að þetta mál stendur einfaldlega of veikum fótum frammi fyrir augljósum lýðheilsurökum.