146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[19:59]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil aftur að fram komi að ég hef ekki mótað mér lokaafstöðu í þessu máli enda er þetta, eins og hv. þingmaður kom réttilega inn á, stórpólitískt mál. Þess vegna finnst mér líka umræðan í samfélaginu um að þetta sé ekki mál sem verðskuldi svona mikla umræðu ekki vera rétt nálgun. Þetta er einmitt málefni sem krefst mikillar og djúprar umræðu. Það er í sjálfu sér fagnaðarefni að við höfum átt hana hérna í dag og síðustu daga.

Ég ber hag alkóhólista og barna þeirra sannarlega mjög fyrir brjósti. Sá hópur þarf sannarlega stuðning. Ekki spurning. Þess vegna velti ég fyrir mér og átta mig ekki alveg á málflutningi hv. þingmanns þegar hún segir að það sé kannski aukaatriði að ræða sálfræðiþjónustu við börn alkóhólista. Ég get bara ekki fallist á að það sé eitthvert aukaatriði að ræða mögulegt aðgengi barna alkóhólista að sálfræðiþjónustu. Ég held einmitt að það sé algert lykilatriði og gríðarlega mikilvægt. Þess vegna vakti ég máls á því. Mér finnst það einmitt vera mál sem þótt sannarlega megi segja að eigi líka heima í einhverri annarri umræðu tengist líka þessu máli. Við eigum að ræða þetta allt samhliða.

Síðan vísar hv. þingmaður í gömul álit sem hafa borist þinginu varðandi þetta mál. Síðan þau bárust tel ég augljóst að ÁTVR hefur opnað fleiri verslanir víða um land og rekur örugglega miklu fleiri verslanir í dag en það gerði á þeim tíma þegar þau álit komu inn á borð þingsins. Ég velti fyrir mér af hverju þingið og sá þingflokkur sem hv. þingmaður talar hérna fyrir hefur ekki lagst gegn því að aukið hafi verið svona svakalega (Forseti hringir.) á fjölda verslana og opnunartíminn rýmkaður eins mikið og raun ber vitni.