146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[20:03]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður fer fram á það hérna að ekki sé verið að leggja henni orð í munn. Ég taldi mig ekki vera að gera það. En hún kemur hér inn á einhverja gamaldags umræðu í andsvari við mig og ég get bara upplýst hana um og það vita allir sem hér hlusta að ég talaði ekkert um gamaldags umræðu. Hins vegar svaraði þingmaður ekki þeirri spurningu sem ég bar upp við hana eða því sem ég bað hana um að hafa skoðun á varðandi það að ríkið, ÁTVR, hefur verið opnað á svæðum um land allt og opnunartímar lengdir og rýmkaðir og aðgengi að áfengi þar með aukið til muna. Hún kemur ekki inn á þetta í svari sínu við andsvari mínu.

Hv. þingmaður talar um að við séum ekki að ræða um sálfræðiþjónustu við börn og eigum ekki að ræða það tengt þessu máli. Ég er ósammála henni þar. Við eigum einmitt að vera að ræða það tengt þessu máli. Ég ræði hér um börn hreinlega vegna þess að börn hafa oft og ítrekað verið nefnd í ræðum þingmanna, m.a. úr þingflokki hv. þingmanns. Nákvæmlega þess vegna kom ég inn á þá umræðu. Ég var ekkert að gera það til að setja mig á einhvern háan hest. Ég frábið mér slíkar ásakanir. Það er bara mjög ómaklegt, finnst mér, að bera þingmann þeim sökum að hún sé eitthvað að reyna að setja sig á háan hest með því að koma hérna (Gripið fram í.) inn á málefni barna. Ég tek ekki þátt í slíku.

En ég ætla að beina því til þingmanns að svara þeirri spurningu sem ég beindi til hennar. Þætti kannski bara góður bragur á því, þar sem við eigum hér orðastað um þetta mál og ég kom upp í andsvar þar sem ég bar upp ákveðna spurningu og þingmaður svaraði ekki því sem ég lagði fyrir hana. Ég vil bara biðja hv. þingmann að gera það.