146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[20:06]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kannski í fyrsta lagi varðandi spurningu hv. þingmanns hefur það ekki komið til kasta þingsins, rekstur eða fyrirkomulag sölustaða Vínbúða ÁTVR. Hins vegar tel ég að sá kjarni málsins sem það snýst um, þ.e. að bæta þjónustu og jafna aðgengi, sé í raun og veru leiðarljós þeirrar stofnunar. (Gripið fram í.) Það hefur ekki komið til skoðunar eða kasta Alþingis. (Gripið fram í.) Forseti …

Af því að hv. þingmaður gerir því skóna að það sé mín hugmynd að tala um börn og stöðu barna er það þannig, og ég bið hv. þingmann að leggja við hlustir, að þeir aðilar sem ég vísa til; háskólastofnun, Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd, umboðsmaður barna, Læknafélag Íslands, embætti landlæknis, allir þessir aðilar tala um að hagsmunir barna séu í hættu við samþykkt þessa frumvarps. Þessa frumvarps. Allir þeir aðilar tala um það. Það að taka ákvörðun um að hunsa þau varnaðarorð er ákvörðun sem fólk verður að taka með opin augun. Ef það kýs að hunsa þessi varnaðarorð verður það að hafa rök fyrir því. Það er það sem ég hef sagt, virðulegi forseti.