146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[20:07]
Horfa

Flm. (Teitur Björn Einarsson) (S):

Frú forseti. Undir lok 1. umr. um þetta mál held ég að sé óhætt að segja að fram hafi komið skiptar skoðanir. Komið hafa fram ýmsar gagnlegar ábendingar. Umræðan hefur heilt yfir verið upplýsandi og að mörgu leyti málefnaleg. Ekki alltaf, en að mörgu leyti. Ég held að óhætt sé að segja að í þessari 1. umr. hefur afstaða þingmanna komið ágætlega fram. Meginsjónarmiðin sem eru undir í þessu máli hafa verið vel reifuð. Ég held að hv. allsherjar- og menntamálanefnd sé komin með ágætisefnivið til að vinna úr og taki þá umræðu sem hér hefur farið fram með sér og vinni úr þeim sjónarmiðum.

Eins og ég gerði að umtalsefni í framsöguræðu minni má í grófum dráttum skipta þeim efasemdum í tvennt sem um þetta mál eru: Annars vegar eru þau sjónarmið sem snúa að lýðheilsu og hins vegar þau sjónarmið sem snúa að ágæti frjálsrar verslunar út frá hagsmunum neytenda upp á vöruúrval eða gæði. Að hluta til má segja að þessi tvö meginatriði séu ósamrýmanleg. Annaðhvort er það. En það er margt sem hafa ber í huga í þessu máli. Við erum að ræða kerfisbreytingu, breytingu á einokunarfyrirkomulagi með smásölu áfengis sem er í dag í höndum ríkisins. Við erum einnig að ræða hér lýðheilsumál í stóru og smáu samhengi. Umræðan fer að sjálfsögðu um víðan völl.

Án þess að ég ætli í þessari seinni ræðu minni að fara út í öll þau rök sem komið hafa fram ætla ég að bregðast við einu atriði sem komið hefur fram í máli nokkurra hv. þingmanna. Lagt hefur verið út af orðum mínum í framsögu þar sem ég vakti athygli á því að í allri umræðu um lýðheilsumál væri til staðar fjöldinn allur af rannsóknum, samantektum, erlendum sem innlendum. Sumar rannsóknirnar eru umfangsmiklar, ítarlegar, aðrar ekki. Sumar eiga erindi við það frumvarp sem hér er til umræðu, aðrar ekki. Um hverja einustu fullyrðingu, ef svo má segja, má grafa upp gögn, tölfræði sem getur gefið rök fyrir gagnstæðri ályktun. Ég hef verið sakaður um að virða ekki vísindalegar rannsóknir. Ég ætla aðeins að fá að bera af mér sakir varðandi það mál.

Ég sagði í framsöguræðu minni að tölfræði og rannsóknir væru mikilvægt tæki þegar um væri að ræða stór og flókin kerfi í samfélagi okkar, sem við notum til að styðjast við til þess að ná einhverri lendingu eða niðurstöðu. Mikilvægt tæki. En ég sagði jafnframt að varast bæri að draga of víðtækar ályktanir af svo ólíkum og fjölbreyttum rannsóknum sem geta verið með svo margt undir sem ekki er viðeigandi hverju sinni, og nota það sem útgangspunkt í þessu máli. Þetta mál er stærra og flóknara en svo.

Að sjálfsögðu eru vísindi grundvöllur samfélags okkar, grundvöllur þekkingar okkar á umhverfi okkar, samfélagi okkar. Þau eru grundvöllur í svo mörgum fræðum sem og hin vísindalega aðferð að leiða eitthvað fram, hvort sem er á sviði læknavísinda, lögfræði, hagfræði, lýðheilsu eða hvaðeina. En varast ber að taka eina hlið eftir hentisemi í umræðunni og gera að útgangspunkti. Það er grundvöllur vísinda að vera gagnrýnin. Vísindi geta ekki þrifist nema með gagnrýninni hugsun, að spurninga sé spurt, niðurstöður dregnar í efa. Tilgáta verður ekki að kenningu fyrr en hún stendur óhögguð eftir gagnrýni. Kenning verður ekki að lögmáli fyrr en hún er yfir vafa hafin. Það er grundvallaratriði. Ég er nefnilega efahyggjumaður að mörgu leyti. Ég er raunsæismaður. Ég er ekkert sérstaklega trúaður heldur því að ég vil horfa á staðreyndir og draga af þeim ályktanir fyrir mig sjálfan, hvað ég tel vera rétt. Það vil ég að komi fram. Þess vegna frábið ég mér að menn fari hér í einhverjar vafasamar samlíkingar um þetta atriði því að það skiptir máli.

Í hagfræði eru margar virtar og gagnlegar rannsóknir. Það voru tveir mjög virtir, ágætir hagfræðingar hér áður fyrr, Keynes og Hayek. Mjög virtir hagfræðingar. Þeir gerðu margar góðar rannsóknir og kenningar um hagfræði og hvaða þýðingu hagfræði hefur í mannlegu samfélagi. Voru þeir sammála, Hayek og Keynes? Nei. Þeir voru ekki sammála. Erum við hér í þessum þingsal sammála um hvernig við drögum ályktanir af öllum þeim gögnum sem liggja hérna fyrir? Nei, við erum ekki sammála. Við höfum nefnilega ólíkt gildismat, ólíka sýn á hvernig samfélag við viljum sjá byggjast hér upp og hvernig það getur byggst upp. Það tel ég að sé mikilvægt að við höfum ávallt í huga.

Það hefur einnig komið fram í þessari umræðu að þingmenn hafa lýst afstöðu sinni á þá lund að segja: Ja, meginatriði frumvarpsins um afnám einokunarsölu er að mörgu leyti ágætt en menn hafa efasemdir um útfærsluna. Ég skil það mjög vel. Það er nefnilega mjög eðlilegt að menn takist þá á um útfærsluna. Þess vegna bind ég vonir við að eftir þá fínu umræðu sem hefur verið hér um þetta mál fari nefndin yfir öll þau atriði sem snúa m.a. að útfærslu, snúa að því hvaða umgjörð löggjafinn ætlar að skapa þessari vöru, þessari neysluvöru, þó með sérkennilegan eiginleika, og hvaða lýðheilsustefnu löggjafinn á að leggja áherslu á og hvaða þættir virka í baráttunni gegn áfengisbölinu. Við höfum dregið fram í þessu máli að forvarnir, fræðsla og alvörumeðferðarúrræði hafa gríðarlega mikil áhrif og eru einhver besta leiðin sem hægt er að fara til að berjast gegn áfengisbölinu. En það snýr ekki að nákvæmlega því hvernig sölufyrirkomulagi í smásölu áfengis er háttað og hvort það verður að vera einokunarverslun ríkisins.

Ég er nokkuð ánægður með þessa umræðu. Ég held að það sé hægt að finna samhljóm ef menn fara inn í umræðuna með eftirfarandi að leiðarljósi: Hvernig finnum við og gerum rammann utan um áfengi og tengd atriði sem best úr garði en náum um leið fram helstu meginatriðum þessa frumvarps?