146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[20:19]
Horfa

Flm. (Teitur Björn Einarsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er reyndar að hugsa í hverju það hafi falist. Það er sjálfsagt að fara yfir það aftur. Eins og hefur komið fram hjá öðrum þingmönnum eru ýmis atriði í þessu frumvarpi sem við erum að taka á. Þau snúast um hugmyndafræði og þau gildi sem við höfum að leiðarljósi í baráttunni fyrir betra samfélagi. Ýmsar fullyrðingar sem snúa að lýðheilsu eru ekki allar vísindalega sannaðar. Það er þannig. Er gott að drekka kaffi? Marga bolla? Hversu marga bolla? Í lýðheilsufræðum var áður sagt að það ætti að borða kolvetni, ekki fitu, svo snerist þetta við og það átti að sleppa kolvetnum en borða fitu. Þetta eru gagnlegar umræður, upplýsandi umræður. Við eigum að taka mið af þeim. En það sem ræður úrslitum, og við eigum einmitt að nota þessi atriði, hvernig við útfærum nákvæmlega þann ramma sem viljum skapa málinu, er að við styðjumst við þau gögn og þær upplýsingar sem fyrir liggja. Ég er einungis að benda á að í mörgum tilvikum stangast fullyrðingar á.