146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[20:23]
Horfa

Flm. (Teitur Björn Einarsson) (S) (andsvar):

Það væri vissulega freistandi alveg undir blálokin í 1. umr. að ræða við hv. þingmann um ýmislegt sem hann kom inn á og gerir tilraunir til þess að láta í það skína að sá sem hér stendur sé ekki hlynntur til að mynda þróunarkenningunni. En þá umræðu verður hann því miður að reyna síðar og undirbúa þá málefnalegu árás í þessu máli aðeins betur.

Varðandi umræðuna og þinglega meðferð vil ég í fyrsta lagi taka fram að ég bind miklar vonir við að í meðferð allsherjar- og menntamálanefndar verði vandlega farið yfir þau atriði sem hér hefur m.a. verið komið inn á og hv. allsherjar- og menntamálanefnd geri nákvæmlega það sem hún telur vera rétt og að hún þurfi til þess að fá sem breiðasta samstöðu um þau grundvallaratriði sem hér eru undir og hvernig útfærslan í lögunum um þann ramma sem þarf að skapa verði sem best og að áhersla verði lögð á mikilvægi forvarna, fræðslu og meðferðarúrræða fyrir þá sem þurfa á aðstoð að halda.