146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[20:25]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að hv. þingmaður virði það við mig að í blálok umræðunnar langar mig að tæpa á nokkrum atriðum úr greinargerðinni sem ég hef ekki fengið neinn botn í og sums staðar gætir ósamræmis milli þess sem þar stendur og þess sem hv. flutningsmaður hefur sjálfur sagt. Ef umræðu er að ljúka um þetta mál og það að ganga til nefndar þætti mér miður ef það hefði ekki verið ámálgað hér í ræðustól og jafnvel fengin einhver skýring á.

Mér finnst samantekt hv. þm. Teits Björns Einarssonar um umræðuna hér heldur nauðhyggjuleg, þ.e. að umræðan snúist um þessa tvo flokka og ekki neitt annað. En látum það vera. En af því að hann leggur upp úr ólíkum rannsóknum langar mig að biðja hv. þm. Teit Björn Einarsson að sýna mér, og senda mér þá í einkaskilaboðum, allar þær rannsóknir sem sýna fram á að engin tenging sé á milli aukins aðgengis að áfengi og aukinnar neyslu. Eða jafnvel að það sé neikvæð tenging, að neyslan minnki. Ég bara bið hv. þingmann um það.

Hv. þm. Teitur Björn Einarsson og fleiri hafa talað hér um, og hafa tekið það sem rök í máli sínu, að útibúum ÁTVR hafi fjölgað og þar með hafi aðgengi aukist. Í frumvarpinu segir að útibúin séu 53, í máli hv. þingmanns eru þau orðin 50, eins og þau eru reyndar á heimasíðu ÁTVR. Mig langar að fá skýringu á þessu misræmi. Hvað varð um þessi þrjú útibú? Og þar sem þetta er lagt fram sem rök í málinu, þess efnis að aðgengi að áfengi hafi aukist, hafa hv. flutningsmenn þá velt fyrir sér því sem heitir fólksfjölgun? Árið 2001 voru íbúar á áfengiskaupaaldri (Forseti hringir.) rúmlega 283.000, 2016 eru þeir 334.000. Það gerir rúmlega 5.000 kaupendur á hverja verslun árið 2001 en í dag 4.877. Þetta er eiginlega enginn munur.