146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[20:29]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið, sérstaklega þar sem hann tók af mér ómakið að minnast á útlendingana. Það er ekki ég sem er að leggja hér fram greinargerð með frumvarpi sem nýtir það sem rök máli sínu til stuðnings að breyting á áfengisneyslu hafi kannski verið afskaplega lítil vegna þess að útsölustöðum hafi fjölgað svo mikið. Ég er ekki að gera það. Hv. þingmaður er hins vegar að gera það.

Og það er gott að hv. þingmaður minntist á útlendinga. Við erum að tala um tæpar 2 milljónir ferðamanna 2016 versus um 296.000 árið 2001 — ég nefni þessi ár því að hv. þingmaður hefur sjálfur sett þau inn í greinargerðina sem hann mælti fyrir — og við getum velt fyrir okkur áhrifunum á neysluna eða þörfina á að stofna ný útibú. Auðvitað fjölgar útibúum þegar fólki fjölgar en aðgengið að þeim er kannski það sama vegna þess að fólki hefur fjölgað. Ég dreg í efa þann rökstuðning sem er í frumvarpinu, ein rök af mörgum, fyrir þessum miklu breytingum.

Annað sem mig langar að spyrja hv. þingmann að hér í blálokin, svo að það fylgi málinu fari það áfram, er um minni brugghúsin. Hv. þingmaður fullyrðir í greinargerð ásamt meðflutningsmönnum að frumvarpið, verði það samþykkt, sé líklegt til að skapa aukin tækifæri fyrir minni brugghús, með leyfi forseta:

„Reyndar hafa einhver minni brugghús nú þegar náð að fóta sig í sölu á áfengi í gegnum vöruvals- og smásölukerfi ÁTVR og eru sátt við núverandi fyrirkomulag. Það er hins vegar vegna þess að þau hafa náð að koma sinni vöru í gegnum þungt og kostnaðarsamt ferli og eru hrædd um að tapa þeirri stöðu sem þau hafa náð ef ástandið breytist.“

Hvaða heimildir hefur hv. þingmaður fyrir þessari skoðun forsvarsmanna minni brugghúsanna og af hverju stangast það sem stendur í greinargerðinni á við það sem komið hefur fram hjá ótal mörgum forsvarsmönnum minni brugghúsa?