146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[20:31]
Horfa

Flm. (Teitur Björn Einarsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það má segja við þessu andsvari frá hv. þingmanni að hægt sé að fara í ýmsar bollaleggingar um hve margir útsölustaðir eigi að vera á Íslandi. Er talan 50 rétt? Menn geta skoðað íbúaþróun, fólksfjölgun og dreifingu íbúa. Ég hef dregið það fram í máli mínu að heilt yfir megi segja að aðgengi sumra íbúa sem búa nálægt útsölustöðum áfengis sé þokkalegt. Aðgengi annarra íbúa þessa lands, sem þurfa að keyra um langan veg til að kaupa áfengi, telst þá ekki vera þokkalegt. Er það þá meðaltal vegalengdar þessara íbúa sem skiptir máli? Mun fólksfjölgun kalla á fleiri útsölustaði? Það kann vel að vera. Ætlar ÁTVR að loka útsölustöðum einhvers staðar? Það kann vel að vera; forstjórinn einn getur svarað fyrir það.

Það sem snýr að því sem hv. þingmaður sagði um misræmi í greinargerð varðandi minni brugghús, þá er það einfaldlega svo að allir þessir aðilar, framleiðendur og heildsalar, búa við það kerfi að vera upp á náð og miskunn forstjóra ÁTVR hvað það varðar hvaða vara kemst að hverju sinni. Það er rétt sem fram kemur að það er strangt sölukerfi. Hver ræður því þá á endanum hvaða áfengistegund hlýtur náð fyrir augum ÁTVR? Það eru alla vega ekki neytendur sem ráða því. Það er grunnatriði í þessu. Neytendur hafa ekkert um það að segja. Það er kannski einn grundvallarágreiningur okkar í þessu máli að við ættum að skoða hvort neytendur geti haft meira um þessi mál að segja.