146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

kjararáð.

189. mál
[21:16]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Hv. þm. Brynjar Níelsson talaði um vond vinnubrögð. Það er eiginlega þess vegna sem ég ákvað að tala aðeins um þau. Þetta mál, eins og hefur komið fram í ræðum þingmanna, kom okkur mjög á óvart. Það kom öllum á óvart nema kannski einhverjum sem voru innviklaðir í það sem var að gerast. Þetta mál vakti ákveðna ónotatilfinningu daginn eftir kosningar, að hafa ekki vitað að eitthvað svona væri að gerast, þótt maður hefði ekki endilega vitað um upphæðir. Þetta var mjög mikil hækkun. Hún fór augljóslega fram úr almennri launaþróun sem kjararáð á að fara eftir. Það eina sem við báðum um var rökstuðningur. Kannski voru til einhver rök sem gátu útskýrt þetta. Við bjuggumst ekki við því en við vildum geta skoðað rökin og rýnt ofan í þau og sagt: Heyrðu, þetta var rangt. Um það snýst þetta frumvarp að þó nokkru leyti.

Nýr úrskurður og þá samkvæmt nýjum lögum sem Alþingi samdi, sem gerir úrskurð kjararáðs þannig að hann fylgi stjórnsýslulögum og upplýsingalögum, sem þýðir að við myndum fá svoleiðis rökstuðning, sem myndi þýða að fólk gæti farið ofan í rökstuðninginn og séð á hverju hann er byggður og gæti jafnvel nýtt sömu rök í eigin kjarabaráttu í kjölfarið. En að sjálfsögðu, eins og hv. þingmenn hafa nefnt, eigum við að fylgja á eftir, við eigum ekki að vera leiðandi. Við eigum ekki að setja gólfið eins og hefur í raun verið gert með þessum úrskurði með því að fara umfram launaþróun.

Það er svo margt í þessu máli sem flokkast undir slæm vinnubrögð. Þessi ákvörðun var tekin á kjördag, af einhverjum undarlegum orsökum, þar sem formaður yfirkjörstjórnar í Suðvestur er formaður kjararáðs. Á þeim degi, á kjördeginum, ætti sá formaður yfirkjörstjórnar að vera upptekinn við eitthvað annað en að funda um laun þingmanna og ráðherra. Það segir manni einungis að það var löngu búið að taka þá ákvörðun áður og það hafi bara verið formlegheit á kjördag að skokka inn í fundarherbergi og stimpla og skrifa undir einhverja pappíra. Það eru vond vinnubrögð.

Það eru vond vinnubrögð að hafa enga áætlun í launaþróun. Við vitum það að í öllum öðrum samningum sem eru gerðir sjáum við stigbundna launaþróun til þess að ná einhverju markmiði í lok samningstíma. Ég hefði viljað sjá eitthvað því um líkt í upplýstri ákvörðun kjararáðs sem segði til um stefnu þess, að það ætlaði að láta þingmenn og ráðherra ná dómurum og hæstaréttardómurum í launum að lokum, ekki í einu risastóru skrefi. Það er það sem svíður svo. Það er það sem svíður um hver ein og einustu mánaðamót sem líða þangað til Alþingi ákveður að gera eitthvað í þessu og fá nýjan úrskurð sem lagar þetta, sem færir okkur þessa áætlun. Þetta er ekkert nema krafa um sanngirni, ekki aðeins sanngirni fyrir þingmenn og ráðherra sem vinna mjög göfugt starf, heldur líka fyrir almenna launamenn í landinu, eins og kom fram í máli hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar um það hvernig þingið hefur áður glímt við sambærileg mál.

Þetta þarf ekki að vera mjög flókið. Við höfum núna ákveðinn möguleika þar sem Samtök atvinnulífsins og ASÍ frestuðu viðbrögðum við forsendubresti um eitt ár. Í ákvörðun sinni um að gera það segir að margir kjarasamningar verði lausir núna 2017. Alþingi má ekki vera sá aðili sem ákveður grunninn að launakröfum þeirra aðila. Við verðum að bíða þangað til þeir hafa klárað sín mál og svo fylgjum við á eftir, förum ekki á undan heldur fylgjum almennri launaþróun eins og kveður á um í lögum um kjararáð.