146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

kjararáð.

189. mál
[21:21]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegur forseti. Ég verð að segja að mér krossbrá við þessi tíðindi þegar mér bárust þau fyrir tilviljun þar sem ég var staddur í ónefndri verslunarmiðstöð hér í bæ rétt um mánaðamótin október/nóvember. Þarna var á ferðinni gríðarleg hækkun. Ég bað ekki um hana. Ég vissi ekki um hana. Ég þurfti ekki á henni að halda.

Þau eru ófá bréfin sem ég og aðrir þingmenn höfum fengið frá því að þetta gerðist frá fólki úti í samfélaginu sem blöskraði þessi hækkun, þessi prósentuhækkun. Sum þessara bréfa sem við höfum fengið hafa verið frá fólki sem á ekki til hnífs og skeiðar, ekki öll, sum frá fólki sem stendur ágætlega fjárhagslega, en skilur og skynjar þá hættu sem þessi ákvörðun hefur í för með sér, þ.e. hættuna á ólgu og óróleika á vinnumarkaði, eins og hv. þm. og félagi minn, Jón Þór Ólafsson, hefur sagt hér örugglega 100 sinnum síðustu tvo mánuði, þó svo að stór hluti þingheims virðist ekki trúa eða skilja þau orð hans. En það er nú allt annar handleggur.

Þetta vinnulag er ekkert annað en blaut tuska framan í almenning. Ég er viss um að almenningur getur unnt þingmönnum þess að hafa góð laun, en launaþróun þingmanna hlýtur að þurfa að vera í takti við launaþróun í þjóðfélaginu.

Hv. þm. og félagi minn, Björn Leví Gunnarsson, minntist á þessa undarlegu dagsetningu, 29. október, kjördag, þegar formaður kjararáðs hefur tíma til að mæta á fund og taka þátt í þessari afgreiðslu, þessum stórtíðindum. Sem formaður kjörstjórnar hefur þetta líklegast verið einhver annasamasti dagur hans síðustu árin. Ég veit það ekki. Ég held að við ættum kannski að fara að endurskoða greiðslur til þeirra sem í kjararáði sitja. Það er augljóslega ekki nokkurt mál að vinna þar og menn geta gert það bara svona í „forbifarten“, afsakið að ég skreyti mál mitt með dönskum slettum.

Þetta snýst um vinnulag og aðferðir. Þetta snýst um það að láta laun þingmanna vera góð, en að láta allar breytingar á þeim fylgja öðrum breytingum í þjóðfélaginu. Þetta snýst um það.