146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

aðskilnaður fjárfestingarbanka og viðskiptabanka.

78. mál
[21:57]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. frummælanda fyrir svarið. Ég ætla að fullvissa hv. þingmann um að það gengur ekki hnífurinn á milli mín og hv. þm. Brynjars Níelssonar þegar svo ber undir og nauðsyn krefur. Ég hefði kannski kosið að við einbeittum okkur að öðru mikilvægara máli í mínum huga, sem er það hvernig við ætlum að skipuleggja eignarhald á bönkunum, hvort við ætlum að innleiða hér reglur þar sem við setjum hámarkshlut á eignarhlut kjölfestufjárfesta, 15% eða 20%; ég átta mig ekki á hvað við eigum að miða við. Og við eigum líka að ganga lengra. Við eigum að setja kvaðir á þá sem eiga meira en ákveðinn hlut, 4–5% eða eitthvað svoleiðis, í bönkunum, að þeir megi ekki eiga ráðandi hlut í öðrum atvinnufyrirtækjum, þannig að við komum í veg fyrir að krosseignatengsl myndist á milli banka, viðskiptabanka og fjárfestingarbanka og almenns atvinnulífs eins og gerðist hér. Ég held að það sé miklu mikilvægari umræða en að aðskilja fjárfestingarbanka og viðskiptabanka, ekki síst vegna þess að ég hef miklar efasemdir um ágæti þess.

Miðað við þær upplýsingar sem ég hef held ég að það muni fremur leiða til aukinnar kerfisáhættu að gera þennan aðskilnað. Það mun verða til þess að hagur fyrirtækja og heimila verður lakari þegar kemur að lánakjörum því að bankakerfið verður dýrara og hagur sparifjáreigenda verður þar með einnig lakari. Möguleikar bankanna til að stunda viðskipti sín verða ekki þeir sömu og áður. Þess vegna spyr ég: Vill ekki hv. frummælandi koma með mér í þessa umræðu fremur en það sem hér er lagt til?