146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

aðskilnaður fjárfestingarbanka og viðskiptabanka.

78. mál
[22:09]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa ágætu fyrirspurn. Að vísu finnst mér furðulegt að hv. þingmaður hafi komið tvisvar í andsvör við ræðumenn og byrjað á þeim orðum að hann skilji ekki það sem þeir sögðu. Ég veit ekki hvort það taki því nokkuð að svara. Ég mun samt reyna.

Ég held að málið sé að það ríki ákveðinn misskilningur um það hvernig ríkisskuldir virka yfir höfuð. Vaxtastigið eins og það er í dag er fyrst og fremst handahófskennd ákvörðun, sem kemur til af því að verið er að reyna að stýra peningamagni í umferð á Íslandi með einu stýritæki sem virkar ekki eins vel og talað er um og eru til alveg ágætisfræði til að skýra það. Það sem ætti að gera er að beita öðrum stýritækjum í meira mæli og lækka vextina. Það að greiða upp ríkisskuldir gerir ekki neitt annað en að minnka heildarmagn einkasparnaðar í hagkerfinu, sem er ekki endilega æskilegt heldur. Við verðum að átta okkur á því að þetta tvennt tengist ekki nema að því litla leyti að við erum komin í þá stöðu að við borgum 70 milljarða á ári í vexti fyrir í rauninni eitt af lægstu hlutfallslegu skuldastigum í Evrópu, ef maður ber það saman við önnur lönd. Þar liggur vandinn, svo ekki sé talað um það háa vaxtastig sem lendir á þeim sem eru með húsnæðislán og þar fram eftir götunum.