146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

aðskilnaður fjárfestingarbanka og viðskiptabanka.

78. mál
[22:11]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla svo sem ekki að ræða einhverja hagfræði að þessu leyti við hv. þingmann, en stýrivextir Seðlabankans og raunvextir eru ekki sami hluturinn. Lánsfé er vara og menn eru tilbúnir að selja þá vöru á ákveðnu verði. Hvað skiptir máli þegar menn ætla að selja akkúrat þessa vöru? Það skiptir máli hvað skuldir ríkissjóðs eru miklar, hvað menn hafa mikla trú á þessu kerfi okkar, hvað þjóðin er skuldug, það skiptir máli þegar vextir eru annars vegar. Þetta er vara. Framboð og eftirspurn skiptir máli. Auðvitað blasir við að ef menn ætla að lækka vaxtastigið í landinu þarf að vera stöðugleiki, litlar skuldir og ríkið ekki í einhverjum áhætturekstri með því að eiga mörg hundruð milljarða í bankakerfinu, það er áhætta. Hvernig heldur hv. þingmaður að hefði farið hér í bankakreppunni hefði ríkið átt alla þessa banka? Hvað vill hv. þingmaður segja um það?