146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

aðskilnaður fjárfestingarbanka og viðskiptabanka.

78. mál
[22:13]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil ekki alveg þegar hv. þingmaður talar um að fara ekki í hagfræðiumræðu en fer svo beint í hagfræðiumræðu. Ég skil ekki slíkt. Við erum í rauninni að tala um hagfræði, þetta snýst allt um hagfræði. En ég er algjörlega sammála hv. þingmanni að raunverulega markmiðið gengur út á að auka tiltrú fólks á hagkerfi Íslands. Það er það sem við erum að reyna að gera með þessari þingsályktunartillögu, að reyna að draga úr líkum á öðru stóru kerfishruni eins og varð hér árið 2008. Við gerum það m.a. með því að aðskilja viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. (Gripið fram í.) Já, ég er viss um að þetta mun leiða til þess og einmitt ekki til þeirrar hækkunar sem hv. þm. Óli Björn Kárason talaði um og spáði fyrir um, að kostnaður vegna lána og annað muni fari upp úr öllu valdi. Hagsagan hjálpar okkur svolítið að vita það.

Ef við hunsum hagsöguna aðeins, sem er kannski hitt atriðið, þá eru þetta að sjálfsögðu vörur. Að sjálfsögðu eru lán vörur sem er verið að kaupa og selja á markaði. En þegar einn aðili á markaði, hvort sem það er hefðbundinn einokunaraðili eða Seðlabanki Íslands, stýrir verði með þeim hætti sem hann gerir mun það að sjálfsögðu breyta því hvernig markaðurinn verðleggur vöruna. Það er nokkuð augljóst. Það er ekki flókin hagfræði, hv. þm. Brynjar Níelsson. Ég trúi því ekki að þetta sé það óskiljanlegt að við getum ekki rætt saman og jafnvel hlustað hvor á annan þegar við ræðum eðli hagkerfisins og hvernig við eigum að verja það og auka tiltrú almennings á því.