146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

aðskilnaður fjárfestingarbanka og viðskiptabanka.

78. mál
[22:17]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir að koma með þessa þingsályktunartillögu inn í þingið. Þetta er afskaplega mikilvæg umræða. Ég verð að segja að mér finnst í raun og veru forgangsröðun hér á þingi vera með algerum ólíkindum. Ég er að hugsa um að byrja bara ræðu mína á því. Hér erum við, klukkan er rúmlega tíu og við erum að ræða eitt stærsta málið fram undan, framtíðarsýn bankakerfisins, hvort við eigum að aðskilja viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. En hvar er yfirmaður og sá sem ber mesta ábyrgð? Er hann hér í þingsalnum? Fjármála- og efnahagsráðherra? Hann er ekki hér. Þessi forgangsröðun á þinginu er með svo miklum ólíkindum að ég hugsa að fólk úti í þjóðfélaginu trúi þessu varla. Dagurinn fór í að ræða áfengisfrumvarpið. Við vitum að kostnaður því samhliða í heilbrigðiskerfinu gæti tvöfaldast vegna sjúkdóma. Allur dagurinn fór í þá umræðu. Svo erum við komin hér og það er einstakt tækifæri til að ræða framtíðarskipan íslensks fjármálamarkaðar sökum þess að eignarhaldið er óvenjumikið, meðal þess hæsta sem gerist í Evrópu. Nei, þá er bara kvöldfundur, enginn fjármála- og efnahagsráðherra til að koma inn í umræðuna eða í andsvör og við sitjum hér eða stöndum og erum að fara yfir þetta mikilvæga mál.

Fjármálakerfið sem ég vil sjá fram undan er: Ég vil sjá hagkvæmt fjármálakerfi og traust, fjármálakerfi sem þjónar öllum landsmönnum, jafnt heimilum og atvinnulífi. Ég vil hafa fjármálakerfi sem er stöðugt og getur tryggt nauðsynlega innviði öllum stundum. Aðstæður á íslenskum fjármálamarkaði, eins og ég sagði áðan, eru algerlega einstakar til mótunar á framtíðarskipan íslensks fjármálamarkaðar. Ekki aðeins getur ríkisvaldið sett lagaumgjörð um bankana og haft þannig áhrif á framtíðarskipan fjármálakerfisins heldur getur það náð breytingum sem eigandi þeirra. Endurskipulagning bankakerfisins eftir fjármálaáfallið hefur að mörgu leyti tekist vel. Bankarnir eru traustir og gæði eigna hafa aukist umtalsvert síðustu ár.

Tillagan hér til þingsályktunar um aðskilnað fjárfestingarbanka og viðskiptabanka er mjög merkileg. Ekki hefur verið farið í slíkan aðskilnað í öðrum Evrópuríkjum en hann er í einhverjum fylkjum Bandaríkjanna. Megintilgangur tillögunnar er að lágmarka áhættu þjóðarbúsins vegna bankareksturs og minnka líkur á tjóni almennings af völdum áfalla í bankastarfsemi. Þetta er tillaga sem hefur ákveðna framtíðarsýn. Ég gæti vel hugsað mér að styðja slíka tillögu. En áður en ég væri tilbúin til að gefa of mikið upp hvað það varðar myndi ég fyrst vilja sjá heildarendurskoðun á bankakerfinu þar sem eftirtaldir þættir væru skoðaðir og ég ætla að nefna nokkra.

Í fyrsta lagi heildarstærð bankakerfisins. Skoða þarf umfang bankakerfisins, meta hvort núverandi stærð sé æskileg og hvort hægt væri að ná fram frekari stærðarhagkvæmni í kerfinu. Ég held að við séum enn með nokkuð stórt og nokkuð dýrt kerfi. Þetta þarf að skoða áður en næstu skref eru tekin.

Í öðru lagi eignarhlutur og þátttaka á fjármálamarkaði. Meta þarf hversu stór eignarhlutur ríkissjóðs á að vera til skemmri eða lengri tíma litið, ásamt því að skoða hversu stór þátttakandi ríkissjóður á að vera á fjármálamarkaði. Í ljósi sögunnar er rétt að mínu mati að ríkissjóður sé leiðandi fjárfestir í a.m.k. einum banka.

Í þriðja lagi endurskipulagning fjármálakerfisins. Skoða þarf hvort hagkvæmt sé að sameina ákveðnar einingar eða skipta þeim jafnvel upp. Það á eftir að skoða þetta allt. Gætum við mögulega náð meiri samkeppni ef við myndum skipta einhverjum einingum upp? Eða væri hægt að ná frekari stærðarhagkvæmni með því að sameina aðrar? Það á eftir að fara í alla þessa vinnu.

Þess vegna má ég til með að minnast enn og aftur á að hér var birt uppfærð eigandastefna ríkisins á fjármálamarkaði 10. febrúar sl. Þar skorti alla framtíðarsýn. Engir af þeim þáttum sem ég er þegar búin að nefna voru þar undir.

Í fjórða lagi vil ég nefna, og það er einmitt efni þessarar þingsályktunartillögu, aðskilnað viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi. Þarna tel ég að við þurfum, eins og nefnt er í þingsályktunartillögunni, að greina hvaða leiðir eru til staðar sem gætu dregið úr áhættu fjármálakerfisins. Er það t.d. þessi aðskilnaður? Við þurfum að skoða það í því ljósi líka hvað er að gerast hjá öðrum ríkjum, hver sé reynsla þeirra. Mér finnst líka að við eigum að vera svolítið hugrökk þegar við förum í slíka skoðun og hún er þess vegna mjög brýn.

Í fimmta lagi dreift eignarhald eða leiðandi fjárfestar. Þarna þurfum við að fara yfir það hvaða form af eignarhaldi hentar best hagsmunum hagkerfisins og líta þar til þess hversu burðug eftirspurnarhliðin er í þeim efnum. Aðeins er minnst á þetta í uppfærðri eigandastefnu fjármála- og efnahagsráðherra. Þar er stefnt að dreifðu eignarhaldi. Þetta kom reyndar fram í máli ráðherra núna þegar við vorum að ræða þetta í sérstökum umræðum, en ég vil líka skoða fýsileika erlends eignarhalds og sérstaklega að líta þá til Norðurlandanna. Ég held að það væri algerlega þess virði að skoða hvaða áhugi er þar. Mér finnst að ef við færum út í einhvers konar erlent eignarhald þurfi þeir aðilar að hafa umfangsmikla reynslu af bankarekstri. Það þarf að koma einhver virðisauki hvað það varðar. En eins og með annað er þetta eitthvað sem þarf að skoða enn frekar og fara yfir áður en lengra er haldið.

Í sjötta lagi erlend lánsfjármögnun. Með hækkandi lánshæfismati samhliða trúverðugri endurreisn hagkerfisins hefur fjármögnunarkostnaður bankakerfisins lækkað verulega, en hann er hins vegar í hærri kantinum, eins og við öll þekkjum. Ég held að greina þurfi hvernig bankakerfið geti miðlað erlendri lánsfjármögnun í samkeppni við erlenda banka og hvernig samkeppnishæfni þeirra gæti aukist með skynsamlegu rekstrarfyrirkomulagi.

Í sjöunda lagi þarf aðeins að fara betur yfir alþjóðlegan samanburð. Hvað er að gerast þar? Við vitum að regluverkið hefur verið aukið og allt eftirlit með bankastarfsemi eftir hina alþjóðlegu fjármálakrísu. Við eigum óhikað og erum auðvitað að taka mikið af þessu upp í gegnum EES-samninginn. Við þurfum að skoða hvað reynist öðrum þjóðum vel.

Ég held að áður en lengra er haldið, og ég hef verið að tala fyrir því í greinaskrifum, að það geti verið mjög skynsamlegt að setja á laggirnar hóp mjög færra sérfræðinga sem myndu gera drög að vegvísi fyrir framtíðarskipan íslensks fjármálamarkaðar þar sem allir þessir þættir sem ég var að nefna væru skoðaðir. En ég held líka að til þess að þetta sé trúverðugt og að ákveðin sátt sé í samfélaginu þurfi löggjafinn að koma inn í slíka vinnu. Það þarf að vera pólitískt eignarhald á því sem við erum að gera til að þetta sé farsælt. Og líka vil ég nefna að vegna þess að ríkisstjórnin hefur eins manns meiri hluta, þess þá heldur þarf þingið að vera í ákveðinni sátt um þau skref sem verða tekin á næstunni er varða framtíð íslensks fjármálamarkaðar. Markmiðið er að mótuð sé tillaga að skipulagi fjármálamarkaðar sem komi til með að þjóna íslenskum heimilum og fyrirtækjum á ábyrgan og farsælan hátt. Ég segi: Það er einstakt tækifæri og í raun og veru dauðafæri til þess að útfæra farsæla stefnu er varðar íslenskan fjármálamarkað. Það er alveg afskaplega brýnt að við notum þetta tækifæri og tökum þessa umræðu, ekki endilega að kvöldi til. Ég kalla bara enn og aftur eftir betri forgangsröðun hjá þingi er varðar málefni sem skipta íslenskt þjóðfélag jafn miklu máli.