146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

aðskilnaður fjárfestingarbanka og viðskiptabanka.

78. mál
[22:29]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir þetta innlegg. Ég held að það sé algerlega þess virði eins og ég nefndi að fara gaumgæfilega yfir hvort það sé skynsamlegt að aðskilja viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi. Það eru mörg rök og margt af því sem kom fram hjá mér sem hnígur í þá átt.

Ég myndi hins vegar, áður en við ályktum um að ráðist verði í þessa aðgerð, vilja sjá aðeins meiri greiningarvinnu á því og hversu hagkvæmt það er fyrir kerfið okkar. Við erum lítið, opið hagkerfi. Það hefur stundum skort á ákveðna samkeppni. Ég vil taka alla þessa heildarendurskoðun fyrst áður en við tökum afstöðu til þessa. En það eru líka mjög góð rök fyrir því að fara í þetta vegna þess að það er líka tekin ákveðin áhætta. Eitt af því sem við þurfum til að mynda að ræða áður en við seljum er: Er skynsamlegt að skilja þarna á milli? Fáum við jafnvel meira fyrir söluna þegar við erum búin að splitta þessu svona upp? Þetta vil ég að við leggjum ákveðið mat á og að löggjafinn sé partur af þeirri vinnu. Það sé ekki bara þannig að við fáum tiltölulega þurrt plagg um eigandastefnu sem gefur engan vegvísi um þetta.

Hvað varðar lífeyrissjóðakerfið okkar: Jú, ég held að það sé líka algerlega tímabært að fara yfir grunnþætti þess. Það hefur vaxið gríðarlega á síðustu árum. Það kemur líka inn í losun fjármagnshafta. Við fáum ofboðslega mikið innflæði í gegnum þjónustujöfnuðinn, af erlendum gjaldeyri sem þrýstir gengi krónunnar verulega upp þannig að ég hef verið að huga að því að við þyrftum að setja gólf á það hvað varðar fjárfestingar.