146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

aðskilnaður fjárfestingarbanka og viðskiptabanka.

78. mál
[22:32]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála. Ég held að við ættum einmitt að ná samstöðu um þessa tillögu. Ég held að í raun þurfi að gera þetta tiltölulega fljótt því að við fáum líka af því fregnir að vogunarsjóðirnir séu að kaupa sig inn í Arion banka og að lífeyrissjóðirnir komi þar í kjölfarið. Auðvitað er þetta sala á vegum einkaaðila en ríkissjóður á þó 13% í Arion banka. Við erum hugsanlega að horfa fram á miklar breytingar á fjármálamarkaðnum. Þess vegna finnst mér svo afskaplega brýnt að við förum í þessa vinnu og lítum til þess að tíminn er ekkert endilega að vinna með okkur. Það hefur verið þannig kraftur í hagkerfinu okkar sem snertir vöxt ferðaþjónustu og mikill hagvöxtur. Við vitum líka að vegna þess að landsframleiðsla á Íslandi er tiltölulega grunn þá þarf ekki nema ákveðnar hreyfingar inn í kerfið til þess að leysa úr læðingi mikinn hagvöxt, það kemur mikið erlent fjármagn inn í kerfið og skekkir þá samkeppnisstöðu annarra útflutningsgreina. Þetta er risastórt mál. Ég held að það sé að myndast ákveðin samstaða á þingi um að gera þetta með þessum hætti.