146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

aðskilnaður fjárfestingarbanka og viðskiptabanka.

78. mál
[22:33]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum fyrir þessa ágætu umræðu sem mér finnst sýna að þingmönnum úr ólíkum flokkum er umhugað um að taka til efnislegrar umfjöllunar aðskilnað viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi samhliða öðrum þáttum sem mikilvægir eru fyrir framtíðarsýn fjármálakerfisins. Ég er sammála þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað um að við séum með einstakt tækifæri í höndum eins og hv. þm. Smára McCarthy og hv. þm. Lilju Alfreðsdóttur. Við erum með mikið tækifæri til þess að móta núna framtíðarsýn og ég tel að löggjafinn eigi að sjálfsögðu að taka þar málin í sínar hendur í ljósi þess að fyrir liggur eigandastefna þar sem þessi atriði eru ekki tekin til umfjöllunar, ekki hvað varðar aðskilnað viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi, ekki tengsl við aðra geira atvinnulífsins eins og hér hefur verið nefnt og ekki hvað varðar stærð og umfang fjármálakerfisins sjálfs.

Um þessi mál, eins ég kom aðeins að hér áðan en vil ítreka, hefur verið spurt á undanförnum árum. Þau voru til umræðu 2010 og 2013 í efnahags- og viðskiptanefnd á þeim tíma, en alltaf hefur niðurstaðan verið sú að bíða eigi eftir frekari þróun regluverks Evrópusambandsins. Við erum núna á þessu þingi að vinna að gríðarlega mikilli innleiðingu á regluverki Evrópusambandsins, en tökumst kannski ekki á við grundvallarspurningarnar að baki sem hér hafa verið nefndar, til að mynda hvað varðar uppbyggingu fjármálakerfisins, stærð fjármálakerfisins, samþjöppun og sundurgreiningu. Ég fagna því þeim viðbrögðum sem ég skynja hér og að fólk er tilbúið í þessa umræðu, það finnst mér gott. Í ljósi þess að málið fer til hv. efnahags- og viðskiptanefndar vona ég að við getum náð efnislegri umræðu með þeim sérfræðingum og hagsmunaaðilum sem láta sig málið varða. Ég geri enga athugasemd við það að við tökum málið fyrir í þessu víða samhengi sem hér hefur verið óskað eftir, að þetta sé hluti af þeirri umræðu sem þarf að fara fram um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið.

Ég vil þó segja að það hefur skapast ákveðin pressa. Það er verið að selja hluti í bönkunum þótt ríkið sé ekki að selja sína hluti. Það skiptir máli að við eigum þessa umræðu núna á þessu þingi þannig að það sé alveg ljóst hvaða væntingar fólk getur gert sér a.m.k. um framtíðarsýn fyrir íslenskt fjármálakerfi. Það er auðvitað umhugsunarefni fyrir okkur öll hversu stór hluti fjármálakerfið á að vera í hverju samfélagi. Við vitum alveg hversu stórt fjármálakerfið var orðið hér fyrir hrun og hvað það þýddi. Mér finnst þetta vera líka umhugsunarefni fyrir okkur í þessari umræðu.

Ég vil nota tækifærið í lokin og þakka fyrir umræðuna. Ég vonast til þess að við getum átt hana oftar þegar efnahags- og viðskiptanefnd hefur hafið sína umfjöllun og að við eigum þess kost líka að taka þessa umræðu á vettvangi Alþingis, (Gripið fram í: Í björtu.) í björtu, í björtu veðri jafnvel. Ég er sammála hv. þm. Lilju Alfreðsdóttur, þetta er mál sem almenningur hefur verulegan áhuga á. Það er umhugsunarefni hvort við teljum að tekist hafi að byggja upp traust á fjármálakerfinu eftir hrun. Ekki samkvæmt nýjustu traustsmælingum. Þar held ég að skýr framtíðarsýn stjórnvalda skipti mjög miklu máli. Vonandi munum við eiga áframhaldandi umræðu um þetta mál og jafnvel í björtu, frú forseti.