146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.

156. mál
[22:45]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er sennilega ekki tilviljun að hér hafa sett sig á mælendaskrá að miklu leyti þingmenn Norðausturkjördæmis. Við þekkjum auðvitað mikilvægi innanlandsflugs og mikilvægi sjúkraflugs, en okkur kann að greina töluvert á um hvaða leiðir eru bestar til þess að leiða þetta mál til lykta. Það er ekki rétt hjá hv. frummælanda að aðdragandi málsins nái aftur um eitt, tvö ár. Aðdragandi málsins nær aftur til 1990 þegar ákveðið var að þessi neyðarbraut færi. Síðan hefur þetta verið jafnt og þétt, ég held að fimm ráðherrar hafi skrifað undir slíkan samning.

Mig langar að spyrja, af því að ég held að málið muni aldrei leysast og aldrei komast í farsælan farveg nema með samningum, nema með sátt: Telur hv. þingmaður í ljósi þess hve aðdragandinn að þessari lokun hefur verið langur að það muni halda að beita lagasetningu til að ógilda úrskurð Hæstaréttar? Telur hv. þingmaður ekki vænlegra að hoppa upp úr skotgröfunum og reyna að ná víðtækri sátt um málið til þess að við þingmenn landsbyggðarkjördæmanna vinnum ekki málinu óbætanlegt tjón ef völlurinn skyldi allt í einu fara og engin lausn er komin í staðinn?