146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.

156. mál
[22:51]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrir þau sem lýstu einhverjum áhuga á því að taka sæti á framboðslistum fyrir síðustu kosningar þá hefði átt að segja við þau: Rétt fyrir kl. 11 á þriðjudagskvöldi í febrúar muntu standa og ræða málefni Reykjavíkurflugvallar. Þá hefði kannski sljákkað í áhuga einhverra. En málið er að sjálfsögðu mikilvægt.

Mig langar að þakka frummælanda fyrir ágæta yfirferð um málið. Ég vil taka það fram að ég skil þau sjónarmið sem fram koma hér. Ég skil samt ekki alveg þessa tillögu og langar að fá að spyrja hv. frummælanda betur út í hana. Í andsvari, í sögu af sérfræðingi sem var að fljúga til Akureyrar í á þriðja hundrað skipti, kom hv. frummælandi kannski inn á það sem er rót vandans að mörgu leyti í þessu máli, en það er að viðkomandi sérfræðingur er ekki til staðar á Akureyri heldur þarf hann að fljúga hátt í 300 sinnum á ári þangað. Það er kannski rót vandans þegar kemur að heilbrigðismálum, ekki það hvernig stendur með flugvöllinn.

Mig langar að spyrja, af því að hv. frummælandi Þórunn Egilsdóttir lýsir sig tilbúna til samninga og vilji ná sátt, hvort hún líti svo á að þetta sé tillaga í átt til sáttar að eftir að Hæstiréttur landsins hefur hafnað málatilbúnaði ríkisins, úrskurðað Reykjavíkurborg í vil, og hér sé á ákveðinn hátt gripið fram fyrir hendur dómstóla og skipulagsvaldi í Reykjavík ýtt til hliðar með lagasetningu á Alþingi. Heldur hv. þingmaður að það nái markmiðinu um sátt sem hún talaði fyrir?