146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.

156. mál
[22:55]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég vil nýta tækifærið og spyrjast aðeins nánar fyrir um tillöguna því að eins og ég kom lítillega inn á áðan þá skil ég sannast sagna ekki alveg hvað í henni felst. Það getur að sjálfsögðu bara verið ég. En það er þá ágætt að fá skýringu á því. Hvernig sér hv. þm. Þórunn Egilsdóttir, og aðrir flutningsmenn, fyrir sér að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra beiti sér fyrir þessu? Hvað sjá flutningsmenn fyrir sér að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra geri? Er verið að hvetja til samræðna við borgarstjórn? Eða er verið að hvetja til þess að með einhverju valdboði verði þetta gert þvert á vilja borgarstjórnar, verði sú raunin?

Hv. þm. Þórunn Egilsdóttir talar um að þetta sé neyðarráðstöfun. Í tillögunni sjálfri kemur fram að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skuli upplýsa Alþingi um aðgerðaáætlun og innihald hennar eigi síðar en í maí 2017. Felast í þessu einhver tímamörk önnur, þ.e. verði þetta að veruleika og þá með leiðum sem ég vonast til þess að hv. þingmaður skýri út fyrir mér hvernig ráðherra eigi að koma í kring? Hversu lengi mun þessi neyðarráðstöfun vara? Ef það er þangað til að önnur lausn hefur fundist á málefnum innanlandsflugs eða neyðarbraut opnuð annars staðar eða jafnvel heilbrigðiskerfið hafi verið bætt, sem er nú kannski dálítið inn í framtíðina, þá erum við væntanlega að horfa á ansi mikið inngrip inn í skipulagsvald Reykjavíkurborgar sem hefur þegar farið alla leið fyrir Hæstarétt þar sem ríkið tapaði sínu máli. En fyrst og fremst væri ég til í að fá útskýringu á því hvernig ráðherra á að framkvæma þetta.