146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.

156. mál
[22:59]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka flutningsmönnum það tækifæri sem hér er gefið til að ræða um málefni Reykjavíkurflugvallar. Í þeim málum er hægt að hafa margs konar skoðanir. Það er t.d. hægt að vera á þeirri skoðun að Reykjavíkurflugvöllur eigi bara að fara, sama hvað. Fólk hafi kosið um það mál fyrir 15–16 árum síðan og það eigi að vera þannig. Það er hægt að hafa þá skoðun að flugvöllurinn eigi að fara en það eigi að búa til annan flugvöll einhvers staðar á höfuðborgarsvæðinu. Það er hægt að hafa skilyrta skoðun, að menn séu til í að skoða að flytja flugvöllinn en að við verðum fyrst að finna honum annan góðan stað á höfuðborgarsvæðinu. Síðan er hægt að vera algerlega á því að flugvöllurinn eigi að vera í Vatnsmýrinni, sama hvað.

Raunar er það þannig að þessar fjórar skoðanir hefur Framsóknarflokkurinn í Reykjavík allar haft í undanförnum sveitarstjórnarkosningum. 2002 var Framsóknarflokkurinn hluti af R-listanum sem hafði þá áform um að flytja flugvöllinn, 2006 var Björn Ingi Hrafnsson oddviti Framsóknarflokks í Reykjavík og vildi flytja hann á Löngusker, 2010 var Einar Skúlason oddviti Framsóknarflokksins og talaði um að flytja flugvöllinn ef það fyndist lausn, 2014 bauð Framsóknarflokkurinn svo fram undir merkjum Framsóknar og flugvallarvina og það gefur vel til kynna hvað afstöðu menn höfðu þar. Menn höfðu aðeins færst þarna á milli skoðana, því miður ekki nær minni skoðun í þessu máli, en auðvitað geta menn skipt um skoðun.

Að öllu gríni slepptu verður að skoða þetta mál í ákveðinni sögu og ákveðnu samhengi. Það er auðvitað ekki þannig að saga þess byrji nýlega, eins og hér hefur verið komið inn á, heldur var árið 2013 í raun búið að sverfa til stáls í þessu máli milli annars vegar Reykjavíkurborgar og hins vegar ríkisins. Reykjavíkurborg hafði þau áform að flytja völlinn, ætlaði að fara í hart í því og taka hann út af aðalskipulagi Reykjavíkurborgar, á meðan ríkisstjórnin hafði áform um að hafa hann áfram í Vatnsmýri. Það stefndi í mjög ljót átök hvað það varðar. Það sem hefði getað gerst er að Reykjavíkurborg hefði getað búið til þannig aðalskipulag að ráðherra hefði annaðhvort getað neitað að skrifa undir það eða beitt lagasetningu. Hún hefði farið fyrir dómstóla, alla leið upp í Hæstarétt þar sem reynt hefði á skipulagsvald sveitarfélaga í málum þeirra.

Þetta gerðist ekki vegna þess að ráðherra í þáverandi ríkisstjórn, Hanna Birna Kristjánsdóttir, beitti sér fyrir ákveðinni lausn í þessu máli. Lausnin sést hér á blöðum sem á stendur Samkomulag um innanlandsflug, frá árinu 2013. Í því samkomulagi fólust nokkrir hlutir. Í fyrsta lagi að skipuð yrði nefnd sem myndi kanna kosti annars flugvallarstæðis. Sú nefnd vann gott verk og skilaði af sér ákveðinni forvinnu sem benti til þess að Hvassahraun gæti verið álitlegur kostur fyrir flugvöll. Í öðru lagi var viðauki við þetta samkomulag sem fjallaði einmitt um margrædda norðaustur/suðvestur-braut. Þar eru nokkrir punktar. Í punkti tvö segir, með leyfi forseti:

„Aðilar ljúki vinnu við endurskoðun á deiliskipulagi fyrir flugvallarsvæðið og að tilkynnt verði um lokun norðaustur/suðvestur-brautarinnar samhliða auglýsingu þess, síðar á þessu ári. Samtímis skal endurskoða núgildandi skipulagsreglur fyrir Reykjavíkurflugvöll til samræmis.“

Þegar gert er svona samkomulag er auðvitað ekki góður bragur á því að byrja á því að segja að við ætlum að mætast hér á miðri leið, gera þetta samkomulag, og síðan ef niðurstaðan t.d. úr einhverri athugun á legu flugvallar er ekki alveg sú sem mönnum er að skapi, ríkisvaldinu, og menn fara svo að gera þá hluti sem er sagt í samkomulaginu að megi gera, þá rjúki ríkisvaldið upp til handa og fóta og ætli sér að setja einhverjar reglur sem færi því það sem það ætlaði sér að gera upprunalega.

Til að vera stuttorður þá hef ég auðvitað skilning á þeim sjónarmiðum sem hér liggja fyrir. En ég get ekki fallist á að þetta sé góð leið til þess að ná sátt við t.d. viðkomandi sveitarfélag um þetta mál. Ég sé því ekki að ég geti stutt framgöngu málsins.