146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.

156. mál
[23:07]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Frú forseti. Bara svo það komi fram þá er rétt að það er annars vegar um að ræða samkomulag um innanlandsflug sem undir rituðu Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, Jón Gnarr borgarstjóri, Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra og Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, ásamt Björgólfi Jóhannssyni, forstjóra Icelandair Group, og hins vegar var það síðan Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra sem undirritaði samkomulag um lokun norðaustur/suðvestur-brautar. Þetta var gert í einni og sömu athöfn. Vissulega sá maður að það leið ekkert öllum jafn vel við undirritun þessa samkomulags. En hins vegar var undir það ritað.

Varðandi samkomulagið milli Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra og borgarstjóra þá er það auðvitað ekkert persónulegt þeirra á milli, þarna skuldbindur ráðherrann ríkið með ákveðnum hætti. Dómstóll hefur vissulega túlkað það á þann veg. Að sjálfsögðu værum við hér þá að ganga ansi langt, það þýðir ekkert að gera lítið úr því, og auðvitað getur þessi salur með einu eða öðru móti ákveðið að reyna að beita lagasetningu og sjá hvort hún stenst stjórnarskrá. En það væri þá að sjálfsögðu verið að brjóta þetta tiltekna samkomulag sem dómstóll hefur nú staðfest að er bindandi fyrir viðkomandi aðila.