146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.

156. mál
[23:30]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nei, ég hef ekki lausnina. Ég benti hins vegar á lausn sem mér geðjast ágætlega eða hugmynd. Síðan skulum við bara sjá hvort hún er fær af flugtæknilegum ástæðum og öðrum ástæðum. Ég er nefnilega þannig gerður að mér finnst að stjórnmálamenn eigi að sinna stefnumótun og setja fram markmið. Markmiðin geta verið að komast á ákveðnum tíma frá A til B með ákveðinni tíðni og með ákveðnum kostnaði, síðan eru það aðrir, verkfræðingar og aðrir, sem finna lausnina á því. Ég fer í bílaumboð og kaupi mér bíl af því að ég þarf að komast á milli staða, en ég kaupi mér ekki íhluti og set hann saman. Við eigum að vera miklu duglegri við að setja niður hvað þarf til þess að leysa málið, hvað þarf til þess að gera landsbyggðina og höfuðborgina sátta, hvaða gæðakröfur við ætlum að setja, hvaða öryggiskröfur við ætlum að setja. Síðan er það tæknileg útfærsla sem við getum svo tekist á um þegar búið er að setja hana á borðið.