146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.

156. mál
[23:40]
Horfa

Flm. (Þórunn Egilsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Logi Einarsson fer hér mikinn. Mig langar til að lesa þessa tillögu upp aftur. Hún hljóðar svona, með leyfi forseta.:

„Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að beita sér fyrir því að norðaustur/suðvestur-flugbrautin á Reykjavíkurflugvelli verði opnuð á ný svo fljótt sem verða má. Ráðherra láti útbúa aðgerðaáætlun í þessa veru og upplýsi Alþingi um innihald hennar eigi síðar en í maí 2017.“

Þarna erum við að hvetja ráðherra til dáða, til að vinna áfram að þeim markmiðum sem þeir hafa sett sér. Við erum ekki að leggja honum eitthvað til hvernig hann á að fara að. Hér stendur hv. þm. Logi Einarsson og ætlar okkur að fara leið sem stendur ekkert um hérna. Ég bið þingmanninn að íhuga það aðeins betur og gæta orða sinna í þessum málflutningi, af því að þetta liggur svona. Þetta er hvatning til ráðherra um að vinna hratt og örugglega að málinu af því að hér er neyðarástand. Við þurfum að bregðast við.

Eins og hefur komið fram í máli hv. þingmanns úr Norðausturkjördæmi, Njáls Trausta Friðbertssonar, þá hafa komið fram nýjar upplýsingar og nýjar upplýsingar krefjast þess að við endurskoðum málin. Getur þá ekki þessi leið orðið til þess að menn komi saman, ræði málin á nýjum grunni og fari fram og finni lausnir sem henta öllu landinu og okkur öllum hér? Ég bara spyr. Er það ekki leiðin? Viljum við ekki auka öryggi? Ég heyri ekki annað á þingmanninum. Ég sé ekki að við séum ósammála í þessu. Látum af þessu, vinnum málið áfram og leysum það.