146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hér var í gærkvöldi ágæt umræða um þingsályktunartillögu sem ég flyt ásamt flutningsmönnum úr fjórum flokkum um aðskilnað viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi. Það sem vakti ekki síst athygli mína í þeirri umræðu var að hv. þingmenn úr ólíkum flokkum komu hér upp og ræddu þau atriði ásamt efnisatriðum tillögunnar sem þeir töldu mikilvægt að leggja áherslu á þegar kæmi að því að móta framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið á Íslandi.

Á sama tíma hafa verið lögð fram drög að eigandastefnu fyrir fjármálafyrirtæki þar sem ekki er tekið á neinum af þessum atriðum. Eigandastefnu, sem kalla mætti seljandastefnu í raun og veru, þar sem boðuð er sala á öllum eignarhlutum ríkisins fyrir utan minni hluta eign í Landsbanka Íslands, í bönkum, en ekkert er kveðið á um stærð bankakerfisins, skilyrði fyrir eignarhaldi í nýjum fjármálafyrirtækjum, aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarstarfsemi, samþjöppun fjármálafyrirtækja. Ekki er tekið á neinum af þessum atriðum í eigandastefnunni.

Við áttum fund í morgun að minni ósk með hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra í efnahags- og viðskiptanefnd um þessa eigandastefnu. Ákveðið var á þeim fundi að mikilvægt væri að hv. efnahags- og viðskiptanefnd tæki þetta mál upp, framtíðarsýn um fjármálamarkaðinn á Íslandi.

Ég ætla að nota tækifærið og fagna því að nefndin taki þetta mál í sínar hendur því að það er með öllu óásættanlegt að stjórnvöld hyggist fara að ráðast í stórfellda bankasölu, banka-outlet mætti kalla það, þegar nánast allir eignarhlutir ríkisins eru settir á söluskrá þó að sagt sé að fara eigi varlega, án þess að fyrir liggi sýn um hvernig fjármálamarkaðurinn eigi að vera til framtíðar. Þetta á að vera eitt mikilvægasta markmið stjórnvalda (Forseti hringir.) núna. Þess vegna fagna ég því að efnahags- og viðskiptanefnd vilji taka ákveðið frumkvæði í þessum málum.


Efnisorð er vísa í ræðuna