146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Virðulegi forseti. Við hér á Alþingi verðum vör við að mörgu fólki þykir illa farið með tíma okkar, að fara enn einu sinni í ótímabæra hólmgöngu um frumvarp sem er á svig við lýðheilsufræðileg, félagsfræðileg, læknisfræðileg og sálfræðileg rök, þ.e. frumvarpið um frjálsa smásölu áfengis, og venjulegri skynsemi, sem er útbreidd vörn gegn vitleysu, er ofboðið nógu víða í samfélaginu til að fjöldi gagnrýnisradda heyrist um tímaeyðsluna. Flestu fólki þykir mikilvægara að við ræðum núna um önnur brýnni mál.

Frú forseti. Á hverjum degi þegar við opnum vefpóstinn okkar sjáum við þar skeyti frá fátæku fólki, ungmennum, eldri borgurum, öryrkjum og fólki sem telur sig misrétti beitt af yfirvöldum. Það biður um aðstoð eða hvetur okkur til dáða. Þetta eru persónuleg bréf, stundum orðljót, bréf um harmleiki, óþolandi aðstæður, fátækt, ójöfnuð í hinu ríka og velmegandi Íslandi árið 2017, ekki 1817. Því miður getur hver einstakur þingmaður fátt eða ekkert gert til bjargar, en það getur ríkisstjórn og þing. Við verðum að hysja upp um okkur brækur og pils og ákvarða og framkvæma úrbætur í velferðarkerfinu og launamálum sem stuðla að jöfnuði og sanngirni. Eins þótt ríkisstjórnin hafi markað stefnu og öll handabönd til þeirra sem minna mega sín eða til þeirra sem aðstoð þurfa eigi að rúmast innan hagsveiflunnar. Þetta eru röng stefnuorð, sögð til að koma í veg fyrir að fjármagn þeirra sem nú eiga af því skili sér í meiri mæli til samneyslu og velferðar. En við getum talað og unnið þveröfugt við þau.

Það eru skilaboðin þennan hrós- og öskudag. Í dag er dagur hróssins. Við myndum örugglega uppskera hrós frá fólki ef við skiptum um gír.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna