146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði reyndar að hrósa í þessari ræðu, eins og sá sem hér var á undan mér gerði, en ég get ekki orða bundist yfir ræðu hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar rétt áðan þar sem hann sakar fyrrverandi fjármálaráðherra og núverandi forsætisráðherra um lygar.

Hann segir meira en það. Hann segir að forsætisráðherra ljúgi úr þessum stól að yfirlögðu ráði. Ég hélt, virðulegi forseti, að gerðar yrðu athugasemdir við slíkt orðalag í þinginu. Ég verð að segja eins og er að fyrir fram geri ég yfirleitt ekki ráð fyrir því að hingað í þennan stól komi menn eða konur til þess að ljúga. Það er afar lítilmannlegt að bera slíkt á menn, ráðamenn þessarar þjóðar og þingmenn.

Píratar ætluðu að koma á þing til að breyta umræðuhefðinni. Þeir ætluðu að laga starfið í þinginu. Þeir voru á móti því hvernig þingmenn höfðu talað hérna. Okkur sem fórum í þingmannaskólann árið 2013 var sagt að laga umræðuhefðina og við höfum staðið við það, nema Píratarnir sem bera svona á fólk. Það er fyrir neðan allar hellur að úr þessum ræðustól skuli aðrar eins ávirðingar bornar á menn. Ég get ekki þagað yfir því. (Gripið fram í.) Mér finnst þetta svo lítilmannlegt. Þetta er lítilmótleg umræða. Og hún er í boði Pírata.


Efnisorð er vísa í ræðuna