146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

framtíðarsýn í heilbrigðismálum.

[15:27]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég er hingað komin til þess að eiga orðastað við hæstv. heilbrigðisráðherra um framtíðarsýn hans í málaflokknum. Mig langar til að byrja mína umræðu á því að nefna þá undirskriftasöfnun sem umlukti í rauninni alla opinbera umræðu í aðdraganda kosninga og snerist um það að krefjast þess að Alþingi verji árlega 11% af vergri landsframleiðslu til reksturs heilbrigðiskerfisins. Þetta varð m.a. til þess að allir flokkar, held ég, hafi sett heilbrigðismálin í forgang og það er meira að segja svo að hæstv. ríkisstjórn segir í samstarfsyfirlýsingu sinni að sá málaflokkur sé efst á blaði og hæstv. ráðherra fer þar auðvitað með mikilsvert hlutverk.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra, vegna þess að það eru sannarlega líka blikur á lofti. Við þekkjum það í stjórnmálum á öllum tímum að peningaöflin sækja að velferðarkerfinu, heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu þegar vantar viðnám fyrir fjármagnið, vantar leiðir til þess að hagnast, að þá er sótt í innviði almannahagsmunanna. Það höfum við séð fyrr og nú.

Það eru ekki síður blikur á lofti nú en fyrr og kannski einmitt með mjög afgerandi hætti þegar umsókn einkaaðila um að fá samning við Sjúkratryggingar Íslands um eitthvað sem er ekki hægt að kalla annað en einkarekið sjúkrahús liggur fyrir og hæstv. ráðherra stendur frammi fyrir því að taka afstöðu til þess. En um leið hefur hæstv. ráðherra sagt bæði í ræðu og riti og á Alþingi jafnvel að hann vilji fullvissa okkur og Alþingi, þingheim, um það að hann muni ekki gera grundvallarbreytingar á heilbrigðiskerfinu. Það eru hans orð. Það standi ekki til. Hann vilji vinna að heildstæðri heilbrigðisstefnu áður en nokkuð annað verði gert, svo ég vitni beint í orð hans. Það er afar mikilvægt, ekki síst í ljósi þess að hægt er að gera býsna miklar breytingar á núverandi kerfi á grundvelli gildandi laga. Þess vegna er það svo að ekki eru allar breytingar þannig sem gætu verið í pípunum sem þyrftu að fara til umfjöllunar á Alþingi, og eru m.a. breytingar sem lúta að rekstri einstakra stofnana. Til að mynda sáum við það á síðasta kjörtímabili að því er varðar einkareknar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu.

Spurningin sem liggur því í loftinu er í fyrsta lagi: Hver telur hæstv. ráðherra að séu eðlileg framlög til heilbrigðiskerfisins sem hlutfall af vergri landsframleiðslu? Þá er sérstaklega spurt um framlög til opinbera kerfisins, þ.e. framlög til opinbera kerfisins í samanburði við einkareknu kerfin. Við vitum að það hefur verið svo á undanförnum árum að opinber framlög til einkareknu þjónustunnar hafa vaxið hlutfallslega meira svo tugprósentum nemur en til hinnar opinberu þjónustu.

Þarna er í raun og veru mjög hallað á og við verðum að muna það og halda því til haga að þarna er alltaf um að ræða fjármögnun frá almenningi, sama hvert féð rennur. Þó að sett sé meira fé í heilbrigðisþjónustuna þýðir það ekki endilega að stutt sé við hið opinbera kerfi sem snýst um jöfnuð.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra hver sé afstaða hans til skiptingar fjármuna til málaflokksins.

Loks vil ég líka spyrja hæstv. ráðherra, því að hann býr nú vel að vera með öflugan landlækni sér við hlið og til að gefa sér ráðgjöf í málefnum heilbrigðisþjónustunnar, hvort hann er sammála landlækni að því er varðar mikilvægi þess að nýta lýðheilsutæki á borð við einkasölu ríkisins á áfengi til að takmarka aðgengi að þeirri vöru í samræmi við raunar opinbera stefnu ríkisins í vímuefnamálum.

Einnig vil ég spyrja hæstv. ráðherra um afstöðu hans til sykurskatts með svipuðum rökum, en þarna er í hvoru tveggja dæminu um að ræða lýðheilsutæki.