146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

framtíðarsýn í heilbrigðismálum.

[15:39]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu og ætla að byrja þar sem síðasti hv. þingmaður endaði, á forvörnum í heilbrigðisþjónustu. Ég held að þær séu einn af stærstu þáttunum í þessu efni og mun fjalla um þær, hvernig fjármagnið kemur við heilbrigðisþjónustuna og mikilvægi nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu.

Forvarnirnar eru mjög víðtækur þáttur og ætla ég að nefna nokkur dæmi. Fyrst er það sem ég hef talað hvað mest um, þ.e. að umferðaröryggi er heilbrigðisþjónusta. Umferðarslys á Íslandi valda því að 200 einstaklingar þurfa á heilbrigðiskerfinu og almannatryggingakerfinu að halda á hverju ári. Umferðarslysin kostar samfélagið um 50 milljarða.

Svo þurfum við að seinka þörf fólks til að fara í hjúkrunarrýmin, reyna að stuðla að því að fólk sé sem heilsuhraustast sem lengst. Einn liður í því er til að mynda að stytta biðlista eins og eftir liðskiptaaðgerðum. Þá held ég að við þurfum að fara færar leiðir í því efni, hvort sem það er hjá einkareknum eða opinberum aðilum. Við eigum ekkert að vera feimin að semja við Klíníkina varðandi það. Ég held að það sé töluvert af fólki sem þarf mun meira á heilbrigðiskerfinu að halda ef það þarf að bíða lengi eftir liðskiptaaðgerðum með tilheyrandi kostnaði.

Þá komum við að fjármagninu. Við þurfum að nýta sem best það fjármagn sem fer í heilbrigðiskerfið. Þar held ég að fjölbreytt rekstrarform gefi okkur svigrúm til að fara mismunandi leiðir og hvernig við getum gert það sem best. Það er líka mikilvægt að hafa nýsköpunina þar þannig að starfsfólkið sjálft sé tilbúið að finna nýjar leiðir og hafi áhuga á að starfa í heilbrigðiskerfinu, ef þar er skapandi umhverfi þar sem það getur látið krafta sína njóta sín. Oftar en ekki eru (Forseti hringir.) öflugar konur, eins og hjúkrunarfræðingar og fleiri sem eru í nýsköpuninni. Við eigum að gera þeim það kleift. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)