146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

framtíðarsýn í heilbrigðismálum.

[15:42]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu. Undanfarin ár hefur það verið skýr og sanngjörn krafa landsmanna að allir hafi góðan og greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu. Krafan er að allir hafi aðgang óháð stöðu, búsetu eða efnahag. Hún er mjög skiljanleg því að þrátt fyrir að á síðasta kjörtímabili hafi verið gefið verulega í til málaflokksins þarf meira til. Það þarf að bæta inn meira fjármagni, bæta starfsumhverfi heilbrigðisstarfsmanna, aðstöðu sjúklinga og síðast en ekki síst þarf stefnumótun í heilbrigðismálum.

Í því samhengi þarf að líta til þjóðarsjúkrahúss okkar landsmanna, þ.e. Landspítalans, en einnig til þeirra öflugu heilbrigðisstofnana sem við eigum víða um landið. Þingsályktunartillaga um heilbrigðisáætlun er forgangsmál Framsóknarmanna á þessum þingvetri. Markmið tillögunnar er að hæstv. heilbrigðisráðherra vinni heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Þessa áætlun skal vinna í samráði við fagfólk í heilbrigðisstéttum því að þar liggur þekkingin, það er fólkið sem þekkir til aðstæðna, sóknarfæra og þess sem betur má fara í kerfinu. Okkur Framsóknarmönnum þykir mikilvægt að fagfólkið komi víða að af landinu því að aðstæður geta verið mismunandi eftir því hvort um er að ræða heilsugæslu á landsbyggðinni eða bráðadeild Landspítalans, svo við tökum dæmi.

Núna er þetta forgangsmál okkar Framsóknarmanna í umsagnarferli innan hv. velferðarnefndar Alþingis og hafa nokkrar umsagnir þegar borist um málið, m.a. frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga sem segir að félagið leggi áherslu á að við gerð heilbrigðisáætlunar fyrir Ísland verði haft samstarf við fagfólk í heilbrigðisstéttum og lýsir því yfir að hjúkrunarfræðingar séu m.a. tilbúnir til þátttöku í þeirri vinnu.

Ég ætla því að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann sé sammála okkur Framsóknarmönnum og Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga um mikilvægi þess að fagfólk komi að gerð þessarar áætlunar og hvort hann ætli sér að styðja málið. Inn á önnur atriði kem ég í seinni ræðu minni.