146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

framtíðarsýn í heilbrigðismálum.

[15:55]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það eru forréttindi að búa í ríki þar sem ríkir þverpólitísk sátt um mikilvægi góðs heilbrigðiskerfis fyrir alla og mikilvægi þess að umræða um það sé til gagns til að bæta alla þjónustu í heilbrigðiskerfinu eins vel og hægt er. Til að svo megi verða verður umræðan oft að vera skýrari. Það hefur sérstaklega borið á að hugtakið einkarekstur virðist oft vera á misskilningi byggt og allt of algengt að þar sé ekki verið að meina rekstur með venjulegri ríkisaðstoð, eins og rétt er, heldur eitthvað allt annað. Sem vinsamlegt dæmi nefni ég orð hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar frá 7. desember sl., með leyfi forseta:

„En yfirleitt erum við að tala um einkarekstur þar sem almannafé er einnig notað til styrktar rekstrinum, með almannatryggingum eða öðru. … ég vil eiginlega ekki kalla það einkarekstur, mér finnst það vera annað. Einkarekstur þar sem hið opinbera borgar með finnst mér vera meira verktaka eða eitthvað því um líkt. Þetta er kannski hugtakanotkun sem væri þægilegt að hafa skýrari. Mér finnst einkarekstur vera þannig að menn eru algjörlega á eigin forsendum og viðskiptavinir borga allan hlutann.“

Forseti. Fyrir utan að þessi orð hv. þingmanns eru ágætt dæmi um mismunandi skilning og tilfinningu fyrir hugtökum nefni ég þau einnig hér til að taka undir með honum um að þessi hugtakanotkun ætti einmitt að vera skýrari. Það er grunnforsenda í allri umræðu um framtíðarsýn heilbrigðiskerfisins sem svo gárast út í samfélagið allt í alla almenna umræðu að notuð séu sömu hugtök yfir sömu þætti heilbrigðiskerfisins til að forða óþarfaruglingi, óvissu og óöryggi um þetta mikilvæga mál hjá fólkinu í landinu.