146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

framtíðarsýn í heilbrigðismálum.

[15:59]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Forseti. Hér í seinna innleggi mínu vil ég koma því að að það er algjörlega augljóst að við þurfum að skapa svigrúm til þess að endurskoða greiðsluþátttöku almennings með það að leiðarljósi að fólk veigri sér ekki við að sækja sér nauðsynlega heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar. Það er óverjandi að það að greinast með illvígan sjúkdóm kollvarpi fjárhag fólks og fjárhag heimila. Það er óásættanlegt að fólk geti verið í þeirri stöðu hér á landi að það hafi ekki efni á að veikjast. Það er óásættanlegt. Þess vegna hefur verið sett fram skýr stefna um að minnka greiðsluþátttöku einstaklinga í heilbrigðisþjónustu hjá þessari ríkisstjórn. En það er ekki nóg. Aðgengi að heilbrigðisþjónustu þarf líka að vera gott. Það þarf að vera viðunandi aðstaða til þess að við getum sinnt þeim sem veikjast svo að sómi sé að.

Ríkisstjórnin leggur þess vegna áherslu á að endurbyggingu Landspítala við Hringbraut verði lokið eigi síðar en 2023. Auk þess er gríðarlega mikilvægt að styrkja heilsugæsluna um land allt sem fyrsta viðkomustað. Þar leggjum við líka mikla áherslu á uppbyggingu öldrunarþjónustu.

Síðan talandi um landsbyggðina. Það er gleðiefni að segja frá því að ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á og tekur sérstaklega fram í stjórnarsáttmála að það á að leggja áherslu á að efla fjarheilbrigðisþjónustu. Ég hlakka til þess að sjá þá vinnu sem verið er að inna af hendi innan ráðuneytisins á því sviði, sem ég vona að við megum eiga von á að sjá eitthvað um fljótlega. Þetta er nefnilega gríðarlega mikilvægt fyrir fólk í landsbyggðakjördæmunum.

Mig langar kannski í seinni ræðu minni að spyrja hæstv. ráðherra hvernig málin standa (Forseti hringir.) í þessum málaflokki og hvenær við megum eiga von á að sjá efni um þetta mikilvæga mál.