146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

framtíðarsýn í heilbrigðismálum.

[16:04]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég þakka fyrir góða umræðu og hæstv. ráðherra fyrir svörin svo langt sem þau náðu. Hann var búinn að gefa okkur fyrirheit um að dýpka þau í lokaræðu sinni. Hann vísar í væntanlega stefnumörkun og segir að áður en farið yrði í stórar breytingar myndi það byggja á almennri stefnumörkun og framtíðarsýn. Þegar hann talaði sjálfur um stöðu heilbrigðiskerfisins 25. janúar 2016 sagði hann sem hv. þingmaður, með leyfi forseta:

„Mér finnst mikilvægt að við komumst frá þvargi um tölurnar, upp eða niður, og einbeitum okkur að því að gera gangskör í alvöruuppbyggingu og áætlun þar um, sem er ekki bara einhvers staðar inn í framtíðina, óljósa framtíð, ef vel gengur, heldur að fylgja eftir þessari tilfinningu í samfélaginu sem við sjáum í þessari undirskriftasöfnun og sjáum trekk í trekk í skoðanakönnunum. Landsmenn vilja sterkari og hraðari uppbyggingu á heilbrigðiskerfinu eftir langan tíma. Ég kalla eftir því að við sjáum áætlun um það …“

Virðulegi forseti. Nú er þáverandi hv. þingmaður og núverandi ráðherra með þetta verkefni á sínu borði. Ég bið hann að upplýsa þingið um grundvallarafstöðu sína sem pólitískur leiðtogi þessa málaflokks til almenns opinbers kerfis sem fjármagnað er úr sameiginlegum sjóðum, helst án gjaldtöku. Ég bið hæstv. ráðherra að svara þessum spurningum skýrt af því að þetta er grundvöllurinn undir alla stefnumörkun og alla sýn á mögulegar breytingar og alla sýn á ásókn gróðaaflanna í samfélaginu, á innviði samfélagsins og þar með talið heilbrigðiskerfisins.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Ætlar hann að standa með opinberu heilbrigðiskerfi í þágu heildarinnar eða ætlar hann að halla sér á hina hliðina og hafa sérstaka samúð með þeim sem hyggjast hagnast á veiku fólki?