146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.

156. mál
[16:48]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og er sammála honum í því að þetta er mjög stórt mál. Þó að við ræðum stundum um skipulagsvald sveitarfélaga og þegar kemur að slíkum málum eins og miðstöð innanlandsflugs á Íslandi þá er ég sammála hv. þingmanni um að það sé ekki einkamál viðkomandi sveitarfélags, ekki frekar en að alþjóðaflugvöllurinn sem er í sveitarfélaginu Sandgerði sé einkamál sveitarstjórnar Sandgerðis. Ég held að allir sjái hið augljósa í því. Enda heyrir sá flugvöllur undir ríkisvaldið hvað varðar skipulagsmál.

Eins og ég kom inn á var það í sumar þegar sá sem hér stendur var í ríkisstjórn og í forsvari fyrir hana að við innanríkisráðherra beittum okkur fyrir því að skrifa bréf, formlegt bréf, auðvitað voru samskipti líka, til borgarstjórnar Reykjavíkur og óskuðum eftir viðræðum. Það má vel vera að kosningar og dráttur á að hér varð til ríkisstjórn hafi orðið til þess að það mál dróst, ég þekki það ekki. En mér vitanlega hafa ekki nein svör borist frá borgarstjórn Reykjavíkur um það. Þegar við setjum þetta fram hér á þessum tíma segjum við einfaldlega: Við getum ekki búið við þetta lengur. Það þarf eitthvað að gera. Ef það er hvatning þingsins, með því að samþykkja þingsályktunartillögu eins og þessa hér, að hvetja ráðherrann til dáða, að gera eitthvað til að tryggja að neyðarbrautin sé opin þar til einhver önnur og stærri ákvörðun er tekin um flutning á vellinum eða flutning á sjúkrahúsinu eða hvað það nú er, þá verði það tryggt (Forseti hringir.) að öryggismál séu ævinlega höfð í forgangi.