146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.

156. mál
[17:05]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Kærar þakkir fyrir andsvarið, hv. þm. Viktor Orri Valgarðsson. Hv. þingmaður spyr út í Landhelgisgæsluna. Ég hef lesið um það einhvers staðar að flugdrægni flota Landhelgisgæslunnar sé ekki sú sama og hjá þeim sjúkraflugvélum sem notaðar eru í dag. Ég veit það ekki fyrir víst. En tillagan snýst um að opna neyðarbrautina. Hún snýst um það að nú ríkir neyð. Við höfum ekki aðgang að neyðarbraut fyrir sjúklinga. Við höfum lent í erfiðum aðstæðum með fárveika sjúklinga sem eru að berjast fyrir lífi sínu. Það er bara mjög brýnt, og það er skoðun þingflokks hv. þingmanna í Framsóknarflokknum, að við verðum að bregðast fljótt við núna. Því er brýnt mál að tillaga okkar verði skoðuð innan þeirrar hv. nefndar sem málið fer til því að um neyð er að ræða. Við höfum ekki tryggan aðgang að heilbrigðisþjónustu í gegnum sjúkraflug nú eins og við höfðum fyrir nokkrum mánuðum síðan.