146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.

156. mál
[17:29]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Mig langar að taka upp þráðinn frá því í fyrri ræðu og vitna í fréttabréf Félags íslenskra atvinnuflugmanna og í formann öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna, Ingvar Tryggvason, með leyfi forseta. Það er úr niðurlagi þessa kafla sem snýr að málefnum Reykjavíkurflugvallar sem ég vitna í. Þar kemur fram:

„Í umsögn Samgöngustofu dagsett 1.6. 2015 um fyrirhugaða lokun flugbrautar 06/24 á Reykjavíkurflugvelli segir: „Samgöngustofa minnir á að gera þarf sérstakt áhættumat um framkvæmd breytingarinnar komi til þess að ákveðið verði að loka flugbraut 06/24.” Ekki er vitað til þess að þetta áhættumat hafi farið fram.

Fólk sem lætur sig flugöryggi og almannahagsmuni varða, hlýtur að geta horfst í augu við þá staðreynd, að við lokun brautarinnar hefur verið farið fram af meira kappi en forsjá.“

Ég vil ítreka það sem kom fram í máli mínu áðan, mér finnst mikilvægt að samgönguráðuneytið skoði það sem kemur núna fram hjá öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna, í fréttabréfi þeirra sem ég vitnaði í í fyrri ræðu, og einnig að málið sé tekið fyrir af umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis og málið rætt og farið í gegnum það, sem gæti væntanlega tengst þessari þingsályktunartillögu þegar hún verður tekin fyrir. Þá er ég að miða við sögu málsins, hvaða áhrif þetta áhættumat, skýrslan hefur haft á allt málið innan stjórnsýslunnar. Ef þetta er rétt sem kemur fram hjá öryggisnefndinni við svari frá Alþjóðaflugmálastofnuninni tel ég brýnt að sú umræða fari fram á þessum tveimur stigum, þ.e. í umhverfis- og samgöngunefnd og í samgönguráðuneytinu.

Ég ítreka enn á ný í þessu máli að öryggishagsmunir almennings verði hafðir að leiðarljósi. Það er lykilatriði. Og að íslensk stjórnsýsla standi undir því trausti. Einnig vil ég vekja athygli á því, eins og ég minntist áðan, að lokun norður/suðurbrautarinnar, aðalbraut flugvallarins, er áætluð árið 2022, eftir fimm ár. Það þarf náttúrlega að fara strax í heildarumræðu um þessi mál í stærra samhengi, hvernig menn ætla að sinna þessu. Reyndar var það mín skoðun þegar menn ræddu staðsetningu þjóðarsjúkrahússins til framtíðar og flugvallarins að þetta ætti að vera samhangandi með einhverjum hætti. Það hefur alltaf verið mín skoðun, svo að því sé haldið til haga.

Varðandi það sem hefur komið fram í þessari umræðu um sjúkrahúsmálin vil ég benda á hvers konar hryggjarstykki Landspítalinn er í bráðaþjónustu í landinu, benda á stærð hans og getu til að sinna alvarlegustu tilvikum sem koma upp. Landspítalinn veltir 60 milljörðum, sjúkrahúsið á Akureyri 8 milljörðum og svo minni stofnanir eins á Austurlandi, sjúkrahúsið þar, 1 milljarði. Þetta segir í hnotskurn hvernig menn geta tekist á við málin. Helmingur af öllu sjúkrafluginu, þeir 711 sem voru fluttir með Mýflugi, fyrir utan 100–150 sem voru fluttir með þyrlum Gæslunnar, er fólk í forgangi eitt og tvö, fólk sem er í lífssókn eða lífshættu.

Það vill svo til að helmingurinn af öllu þessu fólki sem kemur með sjúkraflugi á Landspítalann kemur úr Norðausturkjördæmi. Það er alveg ótrúlegur fjöldi frá Austurlandi þar sem búa tíu þúsund manns. Árið 2015 voru sjúkraflugin 150. Ef þið uppreiknið það og skoðið heilan mannsaldur og hversu stórt hlutfall íbúanna fer í slíkt sjúkraflug sjáið þið hversu gríðarlega stórt og mikið öryggisatriði það er fyrir þetta fólk.

Ég vil síðan rétt í lokin benda á aftur það sem kemur fyrir í héraðsdómi í fyrra, með leyfi forseta, í dómsskjölum þar, í dómsorði dómarans:

„Þá ber að hafa í huga að í meðferð valds síns í málefnum Reykjavíkurflugvallar er innanríkisráðherra sem endranær ábyrgur gagnvart Alþingi samkvæmt almennum reglum. Í krafti almennra heimilda sinna getur Alþingi einnig, ef því er að skipta, gefið ráðherra fyrirmæli um framkvæmd málefna Reykjavíkurflugvallar, svo og sett sérstök lög um málefni vallarins, þar á meðal um stærð og umfang flugvallarins, eftir atvikum þannig að kveðið sé á um heimildir til eignarnáms vegna ákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar, (Forseti hringir.) sbr. 10. gr. laga nr. 97/1995, og forgang laganna gagnvart hvers kyns áætlunum sveitarstjórna samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010.“

Þetta er nefnilega alveg stórmerkilegt og hefur ekki komið mikið fram í umræðunni.