146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

rafræn birting málaskráa og gagna ráðuneyta.

175. mál
[18:07]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég fagna þessu framkomna frumvarpi. Ég held að þetta sé töluvert stærra mál en kann að birtast þegar maður telur hausa í salnum, en það gæti líka verið til marks um það að menn greini ekkert sérstaklega á um það. Þetta er nokkuð í samræmi við þau ummæli sem fulltrúar stjórnarflokkanna hafa haft uppi í tengslum við stjórnarsáttmálann og gott ef það er ekki í samræmi við hann að opna upp á gátt og auka gagnsæið. Ég hef fulla trú á að menn standi við þau orð, enda hefur umræða um opnara samfélag og virkara lýðræði ekki einskorðast við ákveðnar stjórnmálastefnur. Maður getur lesið um það jafnt inn á Pírataspjalli og í pistlum Styrmis Gunnarssonar sem hefur mikið fjallað um þetta. Ég held þetta sé lýðræðismál. Hér höfum við tekið nokkrar sérstakar umræður á síðustu vikum um hvernig hægt er að auka lýðræðisþátttöku, kosningaþátttöku, ekki síst ungs fólks og auðvitað almennings. Ungt fólk er mjög heimavant í hinum stafræna heimi og því er tamt að nýta sér þá tækni sem hér er talað um til þess að afla sér upplýsinga og kynna sér mál. Ég held að þetta sé ótrúlega tímabært og nauðsynlegt skref til þess að opna upp og kveikja áhuga fólks á því að fylgjast með því sem fram fer í samfélaginu á hverjum tíma, svo ég tali ekki um nauðsynlegt aðgengi blaðamanna og möguleika þeirra til að sýna það aðhald sem þeir eiga að veita, eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson kom inn á.

Það er hins vegar örugglega sjaldgæft að hugmyndir að frumvörpum eða þingsályktunartillögum kvikni vegna óheppilegrar hegðunar einstakra ráðherra, eins og gerðist með þetta mál. Það þarf svo sem ekkert að rifja upp enn einu sinni að þáverandi fjármálaráðherra sat á mikilvægum skýrslum sem hefðu alveg örugglega getað haft áhrif á kosningar með einhverjum hætti, alla vega nefndi hann það í svari að skýrslurnar hefðu verið stoppaðar út af kosningum, hvað sem hann átti við með því, ég veit það ekki. Hann talaði líka um það í ræðustól að af því að þetta væri ekki refsivert þá væri ekkert að þessu. En maður verður kannski að gera þá lágmarkskröfu til ráðherra að þeir setji sér strangari viðmið en að bara stoppa þegar kemur að lögbrotum. Sem betur fer er samfélag okkar að langmestu leyti byggt á siðferðilegum viðmiðum, þannig að mér fannst það hálfdapurlegt svar.

Mér finnst þetta bráðnauðsynlegt mál og held að þátttakan í þingsal sýni að það eru eiginlega allir sammála því og menn telji ekki þurfa að ræða þetta neitt í fyrstu umræðu, þannig að ég geri ráð fyrir því að þetta renni í gegn.