146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

jafnræði í skráningu foreldratengsla.

102. mál
[19:02]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Virðulegi forseti. Þessi þingsályktunartillaga hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur gleður hjarta mitt verulega. Ég tek undir með hv. þingmanni án þess að rétt sé að rýra rétt einstaklinga til að þekkja uppruna sinn þá er orðið tímabært að ríkið hætti að krefjast slíks upprunavottorðs eða upprunavottunar eingöngu með sumum börnum. Að kippa þessu í liðinn er einfaldlega liður í því ferli að gera hinsegin foreldra jafnsetta öðrum foreldrum. Það er ekki langt síðan þurfti að berjast fyrir viðurkenningu á því að hinsegin foreldrar teldust „alvöru“foreldrar.

Ég ætla að leyfa mér að vísa í eigin reynslu frá því í byrjun þessarar aldar í þessu sambandi. Þegar ég fæddi tvíburadætur mínar var ég í staðfestri samvist með konu minni, eins konar hjónabandslíki samkynhneigðra á þeim tíma. Þrátt fyrir það taldist hún ekki vera sjálfkrafa annað foreldri stelpnanna okkar. Ég þurfti sem sagt náðarsamlegast að veita henni, konunni sem klippti á naflastrenginn á dætrum okkar, leyfi til þess að stjúpættleiða þær. Þessari stjúpættleiðingu fylgdu ítarleg viðtöl hjá Barnavernd og heimsóknir ítrekaðar fulltrúa Barnaverndar heim til okkar til þess að kanna hvort heimili konunnar sem var að ættleiða væri í lagi, sem var nokkuð sérstakt vegna þess að þetta var sama heimili og ég bjó á og dætur okkar tvær. Þetta var svolítið undarlegt, vandræðalegt, stundum fyndið, en á köflum óttalega nöturlegt. Við þökkuðum oft okkar sæla, ég og konan mín, fyrir að vera þó orðnar það gamlar og reyndar að við gátum staðist þetta án þess einfaldlega að finnast þessar móttökur nærri því óbærilegar.

Ég ætla þó að taka fram svo það sé yfir allan vafa hafið að starfsmenn Barnaverndar voru ekkert nema elskulegheitin. Þar á bæ þurftu menn einfaldlega að takast á við þá staðreynd að þær systur höfðu fæðst annarri konunni af tveimur í staðfestri samvist og enginn faðir var nefndur til sögunnar. Barnaverndin hér í Reykjavík mun ekki á þeim tíma hafa þurft að kljást við svona lagað áður, enda voru lög sem heimiluðu stjúpættleiðingar barna fólks í staðfestri samvist aðeins ársgömul þegar þetta var. Þar vorum við í fararbroddi svo því sé til haga haldið, virðulegur forseti. Ísland var annað landið í heiminum á eftir Danmörku til að lögfesta þann rétt.

Það er liðin tíð að önnur móðirin þurfi að gefa hinni leyfi til að stjúpættleiða börnin sín. Fimm árum eftir að dætur okkar fæddust, eða árið 2006, voru lögfestar reglur um foreldri barns tveggja kvenna sem getið er með tæknifrjóvgun. Í lögunum er þetta skýrt. Með leyfi forseta:

„Kona sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu sinni samkvæmt ákvæðum laga um tæknifrjóvgun telst foreldri barns sem þannig er getið. Sama á við um konur sem skráð hafa sambúð sína í þjóðskrá.“

Þrátt fyrir þessar, svo ég haldi nú söguskýringunni áfram, virðulegi forseti, þrátt fyrir þessar skýru reglur liðu enn fjögur ár þar til samkynhneigðir foreldrar gátu aflað sér fæðingarvottorðs frá þjóðskrá sem endurspeglaði lögbundið foreldri barnsins. Árið 2010 var sem sagt loksins hægt að fá fæðingarvottorð sem sýndi báðar mömmur sem foreldri án þess að tekið væri fram að faðir væri óþekktur. Gagnkynhneigð pör höfðu hins vegar getað fengið slík fæðingarvottorð án þess að jafnframt væri tekið fram að börn þeirra væru getin með gjafasæði. Þar var „pater est“-reglan látin ráða sem gerir ráð fyrir að karlinn sé faðir barna konu sinnar jafnvel þó það sé líffræðilega ómögulegt af einhverjum ástæðum.

Eins og fram kemur í greinargerð með þessari ágætu tillögu til þingsályktunar er mæðrum í samkynja hjúskap eða skráðri sambúð enn gert að afhenda Þjóðskrá Íslands yfirlýsingu um að barn þeirra sé getið með tilstyrk tæknifrjóvgunar ella verður sú kona ein skráð foreldri sem ól barnið. Þessi krafa er ekki gerð til gagnkynhneigðs fólks í hjúskap eða skráðri sambúð sem hefur notið atbeina tæknifrjóvgunar við barnsgetnað eins og hér hefur komið fram. Þarna er einfaldlega verið að mismuna fólki á grundvelli kynferðis.

Réttindi hinsegin fólks hafa ekki stokkið alsköpuð fram á einum degi. Það hafa komið stór stökk, en inn á milli mjakast hlutirnir vart áfram. Stundum hefur tíminn leitt í ljós að þar sem eitt sinn þótti ágæt regla þegar hún var sett reynist þegar fram líða stundir ýta undir mismunun. Þá er ekkert að gera nema kippa því í liðinn. Við þurfum að halda vöku okkar svo réttlætið nái fram að ganga en skapi ekki nýtt óréttlæti. Þessi tillaga til þingsályktunar tekur á máli sem er brýnt að laga, sem er svo auðvelt að laga og sjálfsagt að laga. Ég fagna henni.