146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

brottnám líffæra.

112. mál
[19:27]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur kærlega fyrir gott andsvar vegna þess að þessi spurning og vangavelta kemur mjög oft upp í umræðunni. Sú ákvörðun að setja frumvarpið fram með þessum hætti er tekin eftir ítarlega skoðun og samtöl við heilbrigðisstarfsfólk sem hefur með þá hluti að gera. Við sem að málinu stöndum sjáum ekki fyrir okkur að rétt sé að setja heilbrigðisstarfsfólk í þá aðstöðu að taka að sér að taka líffæri úr einstaklingi ef syrgjandi ættingjar eru alfarið á móti því.

Eins og ég kom inn á í máli mínu áðan sýna rannsóknir okkur að það er í algjörum undantekningartilfellum sem ættingjar leggjast gegn því að líffæri séu tekin ef sá látni hefur lýst sig viljugan til þess að gefa líffæri. Þarna er akkúrat um eina af mörgum siðferðilega erfiðum spurningum að ræða, annars vegar að virða sjálfsákvörðunarrétt þess látna, en hins vegar að sýna aðstandendum hluttekningu á erfiðri stundu. Þarna þurfti maður hreinlega að velja. Við völdum að fara þessa leið þar sem okkur fannst hin leiðin ganga of langt. Eins og ég segi er það aðeins í undantekningartilfellum sem aðstandendur ganga gegn vilja þess látna, ef þeir vita afstöðu hins látna virða þeir hana í 99% tilfella samkvæmt upplýsingum mínum.